Beint í efni

Ítalskir kúabændur þurfa að greiða 17,6 milljarða sekt

26.04.2007

Þann 31. mars s.l. lauk kvótaárinu í löndum ESB. Innan sambandsins hefur hvert land ákveðinn mjólkurkvóta og gilda strangar reglur um að ekki megi framleiða umfram það magn sem hann segir til um. Við uppgjör á framleiðslu síðasta árs kemur á daginn að ítalskir kúabændur hafa framleitt 640 þúsund tonn  umfram landskvóta Ítalíu. Fyrir það verða þeir að greiða 200 milljónir evra, eða 17,6 milljarða króna í sekt til ESB. Það jafngildir um 27,5 krónum á lítra. Til samanburðar má benda á að danskir bændur framleiddu 28.500 tonn umfram landskvóta Danmerkur sem er um 4,4 milljónir tonna.

Umframmagnið jafngildir um 6,4% af ársframleiðslu ítalskra bænda og er tæplega sexfalt magnið sem framleitt er hér á landi. Þetta magn umfram kvótann hefur verið nokkuð stöðugt síðustu ár, þar sem ítölsk stjórnvöld fylgja reglum um sektir vegna umframframleiðslu ekki eftir með sérlega harðri hendi.