Beint í efni

Ítalska mafían stórtæk í svindli

14.08.2012

Við greindum frá því í maí að í Ítalíu er oft verið að villa um fyrir neytendum með umbúðamerkingum sem minna á ítalskan uppruna þó svo að varan sé frá öðru landi. Þarlendu bændasamtökin, Coldretti, hafa verið að berjast fyrir því að innfluttar vörur séu skýrt merktar svo þarlendir neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um vörukaup sín. Hún hefur svo komið í ljós að all stór hluti af vörum á hinum ítalska markaði, sem hafa upprunavottun í Ítalíu, eru hreint ekki ítalskar!

 

Málið kom nýverið upp þegar í ljós kom að upprunamerking á mozzarellaostum úr buffalómjólk var ekki í lagi. Ostar þessir komu frá afurðafélaginu Mandara og þegar yfirvöld fóru ofan í saumana á málinu kom í ljós að mun fleiri buffalómjólkur ostar komu út frá afurðastöðinni en aðkeypt mjólk gæti staðið undir.

 

Fyrirtækið var rannsakað og í ljós kom að ostarnir voru að stærstum hluta framleiddir úr innfluttu mjólkurdufti frá Bólivíu. Auk þess fann lögreglan tengsl á milli eins af eigendum Mandara, Giuseppe Mandara, og hinnar alræmdu mafíu Naples Comorra. Giuseppe þessi, sem alla jafnan kallar sig „Armani des Mozzarella” og vísar þar til gæða ostanna, hefur nú verið handtekinn og um 100 milljón evrur gerðar upptækar (tæplega 15 milljarðar króna).

 

Ítölsku bændasamtökin telja að sambærilegt svindl, með uppruna vara, sé afar umsvifamikið enda er ætlað að ítalska mafían selji upprunafalsaðar landbúnaðarvörur í Ítalíu fyrir um 12,5 milljarða evra á ári hverju eða sem samsvarar um 1.850 milljörðum íslenskra króna. Flestum þessum vörum er smyglað til landsins. Dæmi um smyglvarning sem selst vel er ”ítölsk pastasósa” framleidd í Kína og ”ítölsk ólívuolía” framleidd í Alsír/SS.