
Ísrael og Rússland auka samstarf sitt
14.03.2018
Í byrjun síðasta árs tilkynnti ísraelska fyrirtækið LR Group að það ætlaði að fjárfesta fyrir 100 milljónir dollara, fyrir um 10 milljarða íslenskra króna, í mjólkurframleiðslu í Rússlandi. Þessi ákvörðun LR Group hefur nú opnað fyrir frekari fjárfestingar á milli landanna tveggja og hafa stjórnvöld í Rússlandi og Ísrael nú gert með sér samstarfssamning um tæknilega aðstoð Ísrael við uppbyggingu mjólkurframleiðslu í St. Pétursborg, Tatarstan, Woronesh og Tambov.
Alls verða byggð upp 15 kúabú með amk. 1.200 kúm á hverju þeirra og munu stjórnvöld í Rússlandi niðurgreiða ísraelska tækni s.s. mjaltatækni um 30%. Þá munu héraðsstjórnir í Rússlandi styðja enn frekar við þessa uppbyggingu, en markmið yfirvalda í Rússlandi er að landsframleiðslan á mjólk muni á komandi árum geta staðið undir 81-90% af innanlandsneyslu mjólkurvara/SS.