Beint í efni

Íslenskt verkefni fær milljarð í styrk

01.06.2023

Verkefnið Terraforming LIFE hefur hlotið styrk upp á tæpan milljarð króna frá Umhverfis- og loftlagsáætlun Evrópusambandsins. Um er að ræða samstarfsverkefni Landeldis hf., Bændasamtakanna, Orkídeu, Ölfus Cluster og SMJ frá Færeyjum með stuðningi frá Blue Ocean Technology í Noregi.

Verkefnið er fyrsta íslenska verkefnið sem hlýtur þennan styrk og miðar að því að þróa nýja aðferð til að framleiða áburð og lífgas úr þeim lífræna úrgangi sem fellur til við fiskeldi á landi og úr landbúnaði.

„Í þessu felast gríðarlega spennandi tækifæri til nýtingar lífrænna hliðarstrauma frá fiskeldi á landi. Afurðirnar verða til hagsbóta fyrir íslenska hringrásarkerfið og bæta umhverfisáhrif fiskeldis með því að framleiða ekki aðeins áburð til landbúnaðarframleiðslu heldur líka kolefnishlutlaust eldsneyti, raforku og hita,“ segir Rúnar Þór Þórarinsson, stjórnandi verkefnisins og fulltrúi Landeldis.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna telur verkefnið styðja áfallaþol og sjálfstæði íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Hann segir ein stærsta áskorun bænda síðustu ára vera hækkun á áburðarverði og mun þetta verkefni draga úr þeim áhrifum með auknu framboði á innlendum áburði.