Íslenskt nautakjöt með mun lægra kolefnisspor en innflutt
09.02.2021
Í gær var lokaþáttur þáttaraðarinnar Kjötætur óskast sem sýndur var á Stöð 2. Í þáttunum er meðal annars farið yfir kolefnisspor matvæla og þar voru kynntar tölur um kolefnisspor íslensks nautakjöts byggt á upplýsingum úr Matarspori EFLU. Við lokavinnslu þáttanna bárust þær fregnir að verið væri að vinna að uppfærslu Matarsporsins með kolefnisspori fyrir framleiðslu íslensks nautakjöts sem sýna að það er allt að helmingi lægra en alþjóðlegt meðaltal um nautakjötsframleiðslu bendir til.
Leiðrétting í kjölfar samanburðar við losunarskýrslu LK
Þetta kom í ljós þegar verkfræðistofan EFLA hafði bætt niðurstöðum skýrslu, sem verkfræðistofan vann um kolefnisispor nautgriparæktar á Íslandi fyrir Landssamband kúabænda, við upplýsingar um alþjóðlegt meðaltal landnotkunar, en LK hafði samband við EFLU þegar þættirnir hófu göngu sína þar sem mikill munur var á tölum sem birtust þar og þeim sem fram komu í skýrslunni sem gefin var út í febrúar 2020. Í skýrslunni um kolefnisspor nautgriparæktar á Íslandi er ekki reiknað inn kolefnisspor landnotkunar þar sem áreiðanlegar tölur liggja enn ekki fyrir. Landnotkun getur hins vegar vegið þungt í kolefnisspori nautakjöts og mjólkur. Af þessum sökum hefur erlenda meðaltalið verið notað í Kolefnisreiknivél EFLU – Matarsporinu – fyrir nautakjöt og mjólk. En kolefnissporið samanstendur meðal annars af metanlosun frá iðragerjun, losun vegna landnotkunar og breyttrar landnotkunar, áburðar og eldsneytisnotkun, framleiðslu fóðurs og fleira.
Kúabændurnir efuðust um aðferðafræðina
Hjónin Ragnar Finnur Sigurðsson og Hrafnhildur Baldursdóttir, kúabændur á Litla-Ármóti, sem tóku þátt í vegantilraun fyrir sjónvarpsþættina Kjötætur óskast á Stöð 2, viðruðu frá upphafi tilraunar efasemdir um að kolefnisspor erlends nautakjöts ætti við um íslenskt nautakjöt í Matarspori EFLU. Matarsporið er notað við mælingar á kolefnisspori máltíða í þáttunum. Í lokaþættinum mættu fulltrúar EFLU til fundar við Ragnar og Hrafnhildi á þeirra heimavelli. Þau hjónin framleiða bæði kjöt og mjólk og Ragnar hafði fyrir fundinn mátað tölur fyrir þeirra bú við íslenskt meðalbú sem EFLA hafði stillt upp fyrir Landssamband kúabænda. Í ljós kom að kjöt- og mjólkurframleiðsla á Litlu-Ármótum var að gefa sambærilegt kolefnisspor og íslenskt meðaltal. Til þess að nálgast betur íslenskt kolefnisspor fyrir nautakjöt og mjólk var ákveðið að nýta tölur fyrir íslensk meðalbú, fengnar úr skýrslu EFLU fyrir Landssamband kúabænda, og bæta við erlendu meðalgildi fyrir kolefnisspor landnotkunar.
Allt að helmingi lægra kolefnisspor
Niðurstaðan er sú að innlent nautakjöt er með allt að helmingi lægra kolefnisspor en erlent nautakjöt þegar reiknað hefur verið inn alþjóðlegt meðaltal fyrir kolefnisspor landnotkunar. Þegar íslenskar tölur liggja fyrir um kolefnisspor landnotkunar fyrir kjötframleiðslu verður kolefnisspor kjöt- og mjólkurframleiðslu í Matarsporinu uppfærð. Slíkar uppfærslur eru gerðar með reglulegu millibili með tilliti til nýrra upplýsinga – en reiknivélin er notuð í stórum mötuneytum á landinu.