Beint í efni

Íslenskt Gæðanaut: Matreiðslunemar fylgdu nauti alla leið

30.11.2022

Íslenskt gæðanaut, verkefni á vegum Bændasamtaka Íslands, bauð nýverið tilvonandi matreiðslumeisturum í Hótel- og veitingaskóla MK í heimsókn í sveitina með það fyrir augum að kynna þau fyrir íslenskri matvælaframleiðslu.

Hluti af því var verkefni þar sem nemendur fóru á Nýjabæ undir Eyjafjöllum og völdu naut til slátrunar. Skólafólkið heimsótti Sláturhúsið á Hellu hvert gripurinn fór og kynnti sér starfsemina þar, enda mikilvægt fyrir matreiðslufólk að þekkja ferli matvælanna í þaula. Þá komu þau einnig við hjá fyrirtækinu Hreppamjólk og fengu kynningu á starfseminni þar.

Þessi kjötskrokkur var tekinn í aðstöðu Hótel- og matvælaskólans í MK þar sem lærisveinarnir fullverkuðu kjötið. Lokapunktur verkefnisins var verkleg æfing í framreiðslu og matreiðslu þar sem boðið var í fjölréttaðan kvöldverð.

Umfjöllunin ásamt myndum birtist í 21. tölublaði (2022) Bændablaðsins.

 

Nemendahópurinn skoðaði nautaeldi á Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Jón Örn Ólafsson bóndi útskýrir hvernig búskapurinn fer fram. Mynd / Odd Stefán

Ægir Friðriksson, kennari í matreiðslu, fylgdi nemendum sínum á Nýjabæ. Mynd / Odd Stefán 

Farvegur mjólkurafurða var einnig skoðaður. Hér eru nemendur í skoðunarferð í fjósinu í Gunnbjarnarholti þaðan sem Hreppamjólk kemur. Arnar Bjarni Eiríksson bóndi leiðir veginn. Mynd / Odd Stefán

Nemendur í skoðunarferð í sláturhúsinu á Hellu þar sem þau læra um ferli kjötsins þar. Mynd / Odd Stefán

Nemendur í MK matreiða nautakjöt eftir að hafa verkað og skorið skrokkinn sjálf. Mynd / ÁL 

Ægir Friðriksson og Hinrik Carl Ellertsson, kennarar við Hótel- og veitingaskólann. Mynd / ÁL 

Nemendahópur í eldhúsinu í Menntaskólanum í Kópavogi. Mynd / ÁL

Ungur nemur, gamall temur. Framleiðslunemar læra að flambera steik. Mynd / ÁL

Einnig var unnið með mjólkurvörur. Hér er verið að bræða ost. Mynd / ÁL

Höskuldur Sæmundsson, sem fer fyrir markaðsmálum nautgripabænda innan BÍ, fær steik. Mynd / ÁL