Beint í efni

Íslenskt gæðanaut komið á vefinn

13.07.2021

Í dag og næstu daga mun bætast við efni á naut.is tengdu vörumerkinu Íslenskt gæðanaut en það er nýtt merki sem Landssamband kúabænda hefur unnið að undanfarin misseri. Merkinu er ætlað með skýrum og einföldum hætti að auðkenna íslenskt kjöt frá innfluttu og er ætlað fyrir vöðva og dýrari, gæðameiri bita en markmiðið er að auka sýnileika íslenska nautakjötsins.

Fyrir skömmu var útbúin Facebooksíða til að byrja að kynna þetta verkefni og frekari frétta er að vænta á naut.is á næstu dögum. Sem dæmi mun upplýsinga- og uppskriftasíða verða stór hluti af efninu. Þar verður sett inn nýtt efni sérunnið um íslenskt nautakjöt af Hinriki Carl Ellertssyni mat­reiðslu­meist­ara og samstarfsfólki hans við Mennta­skólann í Kópa­vogi.

Merkinu hefur verið vel tekið af sláturleyfishöfum og verið er að kynna það fyrir öllum sem gætu nýtt það. Viðbrögðin hafa verið vonum framar, allir hafa séð þörfina fyrir svona merkingar og nú þegar er SS byrjað að nota þetta merki á tveimur vörum hjá sér og aðrir eru að skoða hvernig þeir getir nýtt þetta. Allir mega nota merkið án endurgjalds fyrst um sinn og geta áhugasamir sett sig í samband við Höskuld Sæmundsson, verkefnastjóra í gegnum hoskuldur@naut.is