
Íslenskir gestir á aðalfundi Norges bondelag
12.06.2013
Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ og Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ eru staddir í Noregi á aðalfundi Norges bondelag sem að þessu sinni er haldinn í Loen í Sogni og Fjörðunum. Þeir eru þar í boði stjórnar norsku bændasamtakanna en áralöng samvinna og vinátta er á milli íslenskra og norskra bænda.
Á aðalfundinum eru um 300 manns sem munu ráða ráðum sínum um norskan landbúnað næstu daga. Nils Björke, formaður Norges bondelag, hélt stefnuræðu í morgun og Trygve Slagsvold Vedum landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn. Meðal þess sem verður til umræðu á ársfundinum eru komandi þingkosningar í Noregi í haust, aukin matvælaframleiðsla og stefna Norges bondelag til næstu ára. Þá verður m.a. rætt um þróunarhjálp norska bænda í Malaví ásamt því sem ný stjórn verður kjörin á fimmtudag. Sindri Sigurgeirsson hélt ræðu fyrir hönd norrænna gesta við setningu aðalfundarins. Þar ræddi hann m.a. um samvinnu Norðurlandaþjóðanna og að matvælaframleiðsla væri þeim öllum mikilvæg. Hann þakkaði Norðmönnum sérstaklega fyrir þann samhug og stuðning sem þeir hafa sýnt íslenskum bændum síðustu ár í kjölfar náttúruhamfara en einnig fyrir góð ráð í baráttunni gegn ESB-aðild.
Eiríkur Blöndal sagði í stuttu viðtali við bondi.is að viðfangsefni norskra bænda væru að mörgu leyti þau sömu og íslenskra. "Hér snýst umræðan mikið um það hvernig er hægt að auka matvælaframleiðslu og tryggja bændum sanngjörn laun fyrir sína vinnu. Norðmenn eiga í vandræðum í ár með kal, bleytu og kulda rétt eins og bændur heima á Íslandi. Hér tala menn um það að sáning sé allt upp í fjórum vikum seinna en í hefðbundnu ári," sagði Eiríkur.
Efri röð: Eiríkur Blöndal, Nils T. Björke, formaður Norges bondelag, Sindri Sigurgeirsson.
Neðri röð: Lars Petter Taule framkvæmdastjóri búnaðarsambandsins í Hörðalandi og Per Skorge framkvæmdastjóri Norges bondelag.
Myndir: Merete Støfring og Ole-Marius Aune Sandmo.