Beint í efni

Íslenskar mjólkurvörur sigursælar í Danmörku

15.11.2018

Björn Baldursson, gæðastjóri hjá MS, tók við heiðursverðlaununum fyrir súkkulaðimjólk fyrir hönd MS (mynd: International Food Contest)

Íslensk súkkulaðimjólk fékk heiðursverðlaun á matvælasýningunni International Food Contest sem haldin var í Herning í Danmörku dagana 12-15. nóvember. Fékk varan 14,52 í einkunn en hæst er hægt að fá 15.

Í Herning safnast saman á hverju ári fólk úr matvælaiðnaðinum víða að úr heiminum og keppir með vörur sínar á International Food Contest, meðal annars fulltrúar Arla og Q-meieriene. Hlaut Ísey skyr aðalverðlaunin í skyrflokki í ár fyrir skyr er með lagi af ferskju í botninum. Sagði dómnefndin að skyrið „hefði frábæra áferð og hitti beint í mark“. Er þetta annað árið í röð sem Ísey vinnur þessi verðlaun en í fyrra var það fyrir skyr með bökuðum eplum, framleitt af Mjólkursamsölunni á Selfossi.

Íslenskar vörur hlutu ágætis einkunnir á sýningunni en Mjólkursamsalan og Arna kepptu báðar. Fékk MS fjórtán verðlaun fyrir vörur sínar í ár auk heiðursverðlauna fyrir súkkulaðimjólkina. Arna mjólkurvinnslan í Bolungarvík fékk fjögur verðlaun, gull og silfur fyrir gríska jógúrt og AB-mjólk.

Hægt er að lesa nánar um verðlaunin hérna: https://foodcontest.dk