Íslenskar mjólkurvörur í keppni
06.11.2012
Dagana 13.-15. nóvember verður haldin alþjóðlega matvælasýning og –keppni í Herning, Danmörku. Keppni þessi, Danish International Food Contest (DIFC), er fyrir löngu orðin þekkt um allan heim enda eru alltaf frábærar vörur kynntar, haldnar margskonar keppnir, verðlaunaafhendingar og margt fleira. Á sýningunni er haldin hörku undirkeppni á milli margra afurðastöðva í mjólkuriðnaði, þar sem keppt er um viðurkenningar í sk. Danish International Dairy Contest.
Í ár keppa 1.628 mjólkurvörur sín á milli og koma þær frá mörgum löndum, m.a. frá Íslandi. Auk þess taka þátt afurðastöðvar frá Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Þýskalandi, Hollandi, Stóra-Bretlandi, Austurríki, Rúmeníu, Kanada og Bandaríkjunum, auk að sjálfsögðu frá Danmörku. Á heimasíðu keppninnar, www.foodcontest.dk, má fræðast nánar um þessa keppni. Það verður fróðlegt að fylgjast með árangri hinna íslensku vara, en oft hefur árangurinn í þessari keppni verið hreint frábær. Áfram Ísland/SS.