Beint í efni

Íslenska skyrið vann stórsigur í Herning

04.10.2017

Þessa dagana stendur yfir alþjóðlega matvælakeppnin International FOOD Contest en þessi keppni er haldin í Herning í Danmörku. Þar náði íslenska skyrið enn á ný að sýna að það er í sérflokki og vann það í gær sigur í keppninni um bestu mjólkurvöruna í almennum neysluvöruflokki. Það var Ísey skyr með bökuðum eplum frá MS sem vann þennan sterka flokk mjólkurvara , en til þess að setja þennan gríðarlega mikilvæga sigur í samhengi má nefna að MS var þarna að keppa við stórfyrirtæki í mjólkurvinnslu eins og Arla og fleiri þekkt afurðafélög.

Í öðrum flokkum urðu aðrar afurðastöðvar hlutskarpastar og vann t.d. Taulov afurðastöðin, sem er í eigu Arla, ostakeppnina og afurðastöðin í Holstebro, sem einnig er í eigu Arla, smjörkeppnina. Á meðfylgjandi mynd má sjá þá félaga Auðunn Hermannsson og Ágúst Þór Jónsson taka við verðlaununum fyrir hönd MS, en á myndinni eru auk þeirra þau Karen Hækkerup, forstjóri dönsku landbúnaðar- og matvælasamtakanna L&F, og Steen Nørgaard Madsen, stjórnarformaður samtaka danskra afurðastöðva í mjólkuriðnaði/SS