Beint í efni

Íslensk mjaltaþjónabú settu nýtt heimsmet 2015!

11.02.2016

Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2015 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna en uppgjör sem þetta hefur verið gert annað hvert ár undanfarin ár í tengslum við vinnslu á skýrslu um þróun fjósgerða og mjaltatækni hér á landi. Alls voru um áramótin 135 kúabú með mjaltaþjóna með 165 mjaltaþjóna eða 1,2 mjaltaþjóna að jafnaði. Samkvæmt upplýsingum frá Auðhumlu og KS lögðu þessi bú inn 54,3 milljónir lítra á síðasta ári eða 37,2% allrar innlagðrar mjólkur og er þetta bæði Íslands- og heimsmet en hæsta þekkta hlutfall mjaltaþjónamjólkur á landsvísu var 34,9% en það met settu sænsk mjaltaþjónabú árið 2014.

 

Að jafnaði var hvert mjaltaþjónabú að leggja inn 403 þúsund lítra á síðasta ári en til samanburðar má geta þess að önnur bú á landinu lögðu inn að jafnaði 190 þúsund lítra. Þar sem hvert bú er með að meðaltali 1,22 mjaltaþjóna (24 bú með 2 mjaltaþjóna og 3 bú með 3 mjaltaþjóna) nemur innvigtunin 329 þúsund lítrum frá hverjum mjaltaþjóni en afar mikill munur er á milli búanna og nam t.d. mesta innvigtunin 541.053 lítrum frá einum mjaltaþjóni sem er nýtt Íslandsmet. Alls voru 10 aðrir mjaltaþjónar sem skiluðu frá sér 450-541 þúsund lítrum og er það einnig einsdæmi í sögu mjaltaþjónanotkunar hér á landi, þ.e. að jafn hátt hlutfall mjaltaþjóna hafi verið nýttir svona vel.

 

Líkt og vænta má er meðalnyt kúabúa með mjaltaþjóna nokkuð hærri en annarra búa hér á landi en skýringin felst m.a. í tíðari mjöltum og virkara framleiðslustýringarkerfi. Í því uppgjöri sem þessi úttekt nær til var notast við skýrsluhaldsupplýsingar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins frá september 2015 auk þess sem notaðar voru skýrsluhaldsupplýsingar um nokkur bú frá því fyrr á árinu. Ekki er hér því um nákvæmlega sömu tölur að ræða og liggja fyrir um ársafurðir íslenskra kúa 2015 en í þessu uppgjöri voru vegnar meðalafurðir allra kúa í skýrsluhaldinu 5.773 kg. Þegar búið er að draga skýrsluhaldsafurðir kúa mjaltaþjónabúa frá afurðum kúa á öðrum búum er meðalnyt kúa annarra búa 5.557 kg en meðalnyt kúa mjaltaþjónabúanna 6.163 kg. Munar þarna 9,8% á milli þessara ólíku fjósgerða og ólíku mjaltatækni sem notuð er og sem skýra má sem fyrr segir með bæði tíðari mjöltum og góðri bústjórn.

 

Mörg mjaltaþjónabú voru með bæði lága frumutölu (<150.000/ml) og lága líftölu (<20.000/ml)  á síðasta ári og segir það meira en margt annað um getu mjaltatækninnar sem slíkrar. Á hinn bóginn voru einnig all mörg bú með slök mjólkurgæði bæði þegar horft var til of hárrar frumutölu (>300.000/ml) og of hárrar líftölu (>50.000/ml). Fullyrða má að í öllum tilfellum, þar sem mjólkurgæði eru slök þá er unnt að finna lausnir sem bæta mjólkurgæðin og auka þar sem arðsemi framleiðslunnar.

 

Mun nánar og ýtarlegar er fjallað um þessa úttekt í Bændablaðinu í dag/SS.