Beint í efni

Íslensk kúabú með nýtt heimsmet?

08.05.2014

Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2013 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna hér á landi. Alls voru um áramótin 109 kúabú með mjaltaþjóna en árið 2012 voru þetta 105 kúabú og er það aukning um 3,8% á milli ára.

 

Árið 2011 settu íslensk kúabú heimsmet þegar hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum nam alls 28,2% af heildarinnvigtun til afurðastöðva á landinu öllu. Það ár nam innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum 35,2 milljónum lítra en árið 2012 jókst þetta magn í 37,2 milljónir lítra og hlutfall þeirrar mjólkur af heildarinnvigtun nam 29,7% sem í fyrstu var talið nýtt heimsmet en síðar kom í ljós að sænsk mjaltaþjónabú höfðu náð að leggja inn rétt um 30% mjólkurinnar þar í landi.

 

Síðasta ár nam innvigtun mjaltaþjónabúanna hér á landi 38,3 milljónum lítra eða 31,1% mjólkurinnar og þar sem uppgjör hinna Norðurlandanna liggur ekki fyrir er ekki tryggt að um heimsmet sé að ræða, en það er amk. vart langt undan!

 

Nánar er fjallað um uppgjörið í Bændablaðinu sem kemur út í dag/SS.