Beint í efni

Íslensk kúabú með nýtt heimsmet!

07.03.2013

Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2012 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna hér á landi. Alls voru um áramótin 105 kúabú með mjaltaþjóna en árið 2011 voru þetta 101 kúabú og er það aukning um 4% á milli ára.

 

Árið 2011 settu íslensk kúabú heimsmet þegar hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum nam alls 28,2% af heildarinnvigtun til afurðastöðva á landinu öllu. Það ár nam innvigtun mjólkur frá mjaltaþjónabúum 35,2 milljónum lítra en árið 2012 jókst þetta magn í 37,2 milljónir lítra og hlutfall þeirrar mjólkur af heildarinnvigtun nam 29,7% sem er nýtt heimsmet. Ekkert annað land í heiminum kemur nálægt Íslandi á þessu sviði, en næst á eftir eru þó dönsk kúabú með um 26-27% mjólkurinnar frá mjaltaþjónabúum.

 

Nánar er fjallað um uppgjörið í Bændablaðinu sem kemur út í dag/SS.