Íslensk kúabú bættu heimsmetið!
03.04.2012
Nú liggur fyrir uppgjör ársins 2011 um mjólkurframleiðslu kúabúa með mjaltaþjóna. Alls voru um áramótin 101 kúabú með mjaltaþjóna hér á landi og sum þeirra með fleiri en einn mjaltaþjón enda heildarfjöldi mjaltaþjóna á landinu öllu 120 um áramótin.
Afurðastöðvar landsins tóku alls á móti 35,2 milljónum lítrum frá þessum kúabúum árið 2011 en alls nam innvigtun mjólkur á landinu öllu 124,5 milljón lítrum. Hlutfall mjólkur sem kemur frá mjaltaþjónabúum nemur því 28,2% sem er hæsta hlutfall mjaltaþjónamjólkur í heimi árið 2011 samkvæmt NMSM (samtök norrænna afurðastöða í mjólkuriðnaði) og um leið nýtt heimsmet. Fyrra metið var sett árið 2010 þegar dönsk kúabú með mjaltaþjóna skiluðu 26,9% heildarmagns mjólkur þar í landi.
Nú er bara spurningin hvort forsvarsfólk Heimsmetabókar Guinness taki sig ekki til og skrái þetta? /SS.