Beint í efni

Ísgerð í Holtseli í Eyjafjarðarsveit

20.03.2006

Guðrún Egilsdóttir og Guðmundur J. Guðmundsson bændur í Holtseli hafa tekið í notkun nýja ísgerðarvél frá Hollandi. Dóttir þeirra Arna Mjöll tekur einnig þátt í verkefninu og verður að sögn móður sinnar aðal ísgerðarkonan í sumar.  „Guðmundur rak augun í auglýsingu í breska bændablaðinu Farmers Weekly þar sem þessi vél var kynnt og ákvaðum við fljótlega að festa kaup á einni slíkri“ segir Guðrún. „Megin ástæðan var sú að eftir að við höfðum gert miklar breytingar í fjósi skapaðist aukið rými í hlöðunni og höfum við nú inréttað hluta af því plássi fyrir
ísgerðina, en vorið 2005 hrundu stjórnvöld af stað verkefninu: „Beint frá býli“, þar sem lögð er áhersla á að fullunnar afurðir verði á boðstólum heima á búunum án allra milliliða“

Guðmundur sagðist því mjög undrandi á viðbrögðum yfirdýralæknis sem hefur tafið málið mikið og reynt hreinlega að koma í veg fyrir að verkefnið verði að veruleika og viðhaft auk þess niðrandi ummæli um býlið.  Þess má geta að ábúendur í Holtseli hafa fengið verðlaun Umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar fyrir framúrskarandi umgengni og snyrtimennsku. Guðmundur þakkaði hins vegar Valdimar Brynjólfssyni heilbrigðisfulltrúa á Akureyri það að verkefnið er nú komið í gang. 
Aðal markhópur Guðrúnar og Guðmundar verða betri veitingahús og einnig er hugmyndin að vera með gestamóttöku í Holtseli þar sem boðið verður upp á ísinn góða.  Ísinn er gerilsneyddur og án allra aukaefna og því hrein náttúruafurð en hefur samt eins árs geymsluþol í frysti. Ísvélin er afar fullkomin og tölvustýrð en hægt er að velja á milli 400 mismunandi uppskrifta við ísgerðina og allar hugsanlegar bragðtegundir s.s. allar hefðbundnar tegundir eins og jarðarberja, vanillu, hnetu og súkkulaðiís en einnig framandi tegundir eins og bjórís, álaís, hvítlauksís og sveppaís. Ljóst má því vera að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.  U.þ.b 2000 vélar af þessari tegund eru í notkun á evrópskum bændabýlum og hafa verið á markaði s.l. 11 ár.