Beint í efni

Írland: stóraukin mjólkurframleiðsla

16.03.2018

Írskir kúabændur hafa aukið mjólkurframleiðslu sína jafnt og þétt síðan kvótakerfið Evrópusambandsins var afnumið árið 2015 og nú berast fregnir þaðan um verulega aukningu á þessu ári í samanburði við árið 2017. Alls er talið að framleiðsluaukningin muni nema 5% á árinu og verður þá landsframleiðsla Írlands komin í 7,6 milljarða lítra!

Þetta er hraustleg aukning sem skýrist fyrst og fremst af því að hvergi í Evrópu er ódýrara að framleiða mjólk en einmitt í Írlandi enda hægt að byggja framleiðsluna að lang stærstum hluta á heimaöfluðu gróffóðri. Til merkis um mikinn uppgang mjólkurframleiðslu landsins þá hefur kúm þar í landi fjölgað um 350 þúsund síðustu tvö árin og var fjöldi þeirra nú um áramótin 1,4 milljónir. Þá er áætlað að þeim fjölgi í ár um 2% eða um nærri 30 þúsund kýr. Miðað við þennan fjölda kúa og hina áætluðu landsframleiðslu á þessu ári þá lætur nærri að meðalafurðir írskra kúa séu í kringum 5.500 lítrar/SS.