Beint í efni

Írar áætla aukna ostaframleiðslu

24.10.2012

Hið norður-írska samvinnufélag United Dairy Farmers (UDF) ætlar svo sannarlega ekki að sitja eftir þegar kvótakerfi Evrópusambandsins verður lagt af 1. apríl 2015. Þá er búist við töluverðri framleiðsluaukningu á mjólk í fyrstu, á meðan kúabændur landanna innan Evrópusambandsins finna einhverskonar jafnvægi á mjólkurframleiðsluna. Flestar afurðastöðvar eru nú að gera sig klárar til þess að taka við auknu magni mjólkur á þessum tíma og UDF ætlar að tvöfalda ostavinnslu sína.

 

Félagið, sem er það stærsta á Norður-Írlandi, var rekið með hagnaði á síðasta ári og stendur afar vel. Það er sér í lagi vörulína félagsins sem kallast Dale Farms sem skilar þessari góðu niðurstöðu og er undirstaða stækkunarinnar nú. Afurðastöð UDF í Dunmanbridge nærri Cookstown verður stækkuð en hún er fyrir stærsta afurðastöð Norður-Írlands en árið 2007 var ostaframleiðslan einmitt einnig tvöfölduð og var þá gerð tæk fyrir vinnslu á 200 milljónum lítra á einum stað. Nú verður ostalínan s.s. stækkuð í framleiðslugetu fyrir innvigtun á 400 milljónum lítra og allt að 500 milljónum lítra.

 

Fjárfestingakostnaðurinn nemur ekki nema 6 milljónum punda eða sem svarar til um 1,2 milljörðum króna. Skýringin á því að kostnaðurinn er ekki hærri, felst í því að félagið fjárfesti fyrir um 7,5 milljarða í vinnslustöðvum félagsins árið 2010 og þegar það var gert var þegar gert ráð fyrir þessari viðbót og því var búið að búa í haginn/SS.