Beint í efni

Íranskir bændur fá beingreiðslur og aðra styrki

19.01.2013

Í Íran, líkt og öðrum löndum í Mið-Austurlöndum, skiptir nautgriparækt og mjólkurframleiðsla miklu máli sem og annar landbúnaður. Landbúnaður og landbúnaðarframleiðsla í Íran er þó tiltölulega óþekkt stærð meðal vestrænna þjóða vegna margskonar viðskiptatakmarkana sem í gildi eru, vegna stjórnmálastefnu landsins. Íran er í dag þó algerlega háð innflutningi á bæði mjólkurafurðum og nautakjöti en ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að gera landið óháð innflutningi á öllu kjöti árið 2016.

 

Alls nam heildarframleiðsla kjöts (nautakjöt og geita- og kindakjöt) í landinu á síðasta ári 970 þúsund tonnum sem svarar til um 90% þess kjöts sem neytt er í landinu. Ekki er þó nóg að bæta einungis við 10% í framleiðslu á kjöti þar sem árleg neysluaukning í landinu er veruleg. Stefnan hefur því verið sett á 200 þúsund tonna aukningu nú á næstu þremur árum og verður þeirri aukningu náð með vestrænum aðgerðum í landbúnaðarframleiðslu!

 

Ríkisstjórnin ætlar að leggja til nærri 100 milljarða íslenskra króna til sérstaks framleiðsluátak, sen þessir gríðarlegu fjármunir verða nýttir í að bæta framleiðsluaðstæður hjá bændum landsins sem og í framleiðslutengdar beingreiðslur. Mikið er þarna að sækja enda koma gripir oft til slátrunar bæði of ungir og of léttir og vonast því ríkisstjórnin til þess að stuðningsaðgerðirnar leiði til þess að bændurnir ali gripi sína betur en hingað til.

 

Þó svo að landið sé einnig háð innflutningi mjólkurvara þrátt fyrir að framleiða um 12,5 milljarða lítra mjólkur árlega, liggur ekki fyrir áætlun um að leggja mikla fjármuni til mjólkurframleiðslunnar að svo komnu máli.

 

Þess má geta að bændur landsins eru einnig stórtækir í alífuglarækt en hinsvegar er svínarækt bönnuð í landinu af trúarlegum ástæðum/SS.