Innvigtun stefnir í 123 milljónir lítra – C-greiðsla í ágúst 10,75 kr.
03.08.2007
Innvigtun mjólkur í samlög innan SAM var í sl. viku 2.389.745 lítrar og minnkaði um 46 þús. lítra frá vikunni á undan. Innvigtun á verðlagsárinu til þessa er orðin 111,4 milljónir lítra sem er 9,4 milljónum lítra meira en á sama tíma í fyrra.
Verði samdráttur í vikuinnleggi það sem eftir lifir verðlagsársins svipaður og að undanförnu, ca. 45 þús. lítrar milli vikna, þá verður heildarinnlegg á verðlagsárinu rétt um 123 milljónir lítra. Það yrði aukning um 10 milljónir lítra frá síðasta verðlagsári.
Eins og kunnugt er, verður greitt fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk sem berst í samlag á þessu verðlagsári. Síðan 1. júní sl. er það 48,64 kr/l. Verði innlagt mjólkurmagn í ágúst 10,5 milljónir lítra, verður C-greiðsla á líter nálægt 10,75 kr. Heildarverð mjólkur sem lögð er inn umfram greiðslumark er því 59,39 kr/l.
Ástæða er til að benda á, að reglur um C-greiðslur verða óbreyttar á næsta verðlagsári, þannig að C-greiðsla í ágúst 2008 verður lægri að raungildi en svipuð að krónutölu.