Beint í efni

Innmat á grillið þitt?

10.05.2012

Eins og frægt er orðið vantaði rjóma og smjör í Noregi sl. haust og fyrir jólin og í kjölfarið vantaði svo nautgripakjöt á markaðinn, enda héldu kúabændur landsins í kýrnar sínar eins lengi og mögulegt var að ná úr þeim mjólk. Fyrir vikið eru Norðmenn ekki í útflutningi á nautakjöti, né hafa verið svo sem áður. Þeim hefur hinsvegar tekist að finna áhugaverðan markað fyrir innmat sláturgripanna, sérstaklega slögin. Í Japan, hvar annarsstaðar, þykja slögin nefninlega álíka herramannsmatur og hér á landi, þó svo að í Japan séu slög reyndar hluti af sk. Korean Barbeque sem kalla mætti kórenskt grill í lauslegri snörun.

 

Það er fyrirtækið Norilia AS, sem er dótturfélag norska sláturrisans Nortura, sem sér um útflutninginn en alls verða flutt út um 100 tonn í ár. Alls leggjast til um 110 tonn á ári af nautgripaslögum í Noregi svo Japansmarkaðurinn hreinsar nánast upp alla norsku framleiðsluna nú þegar. Norilia var stofnað sérstaklega til þess að sjá um sölu á sláturafurðum sem ekki nýtast alla jafnan á heimamarkaðinum í Noregi, í þeim tilgangi að geta haldið uppi sem hæstu afurðaverði til bænda landsins/SS.