
Innheimta félagsgjalda til LK hættir um mánaðamótin
22.06.2021
Þann 1. júlí næstkomandi mun Landssamband kúabænda formlega færa rekstur sinn undir Bændasamtök Íslands og frá þeim tíma munu bændur einungis greiða eitt félagsgjald til BÍ. Því mun innheimta afurðastöðva í mjólk og kjöti á félagsgjöldum til LK sjálfkrafa hætta frá og með þeim degi.
Sama dag, þann 1. júlí næstkomandi, verður innheimt félagsgjald í BÍ samkvæmt breyttu veltutengdu, þrepaskiptu gjaldi fyrir mánuðina júlí-desember. Forsenda innheimtunnar er að félagsmenn skrái umfang og eðli síns rekstrar inn á Bændatorgið á sérstakt skráningareyðublað. Þeir sem ekki skrá sína veltu detta út af félagatali og missa þannig sín réttindi, s.s. afslætti á tölvuforritum. Bændur eru því hvattir til að ganga frá skráningunni sem allra fyrst.
Heppnir bændur fá sumarglaðning!
Þeir félagsmenn, sem hafa lokið við að skrá veltu fyrir 30. júní nk., eiga möguleika á að vinna sér inn sumarglaðning. Dregið verður úr nöfnum bænda og í pottinum eru fimm gjafabréf frá Hótel Íslandi í Reykjavík og önnur fimm gjafabréf á Hótel Kea á Akureyri, Skugga Hótel í Reykjavík og Hótel Kötlu á Suðurlandi. Einn heppinn félagsmaður fær kvöldverð fyrir tvo á veitingastaðnum Bryggjunni á Akureyri.
Veltutölur samkvæmt framtali síðasta árs
Allir greiðendur félagsgjaldsins þurfa að skrá veltutölur í sinni búgrein samkvæmt framtali síðasta árs af landbúnaðarstarfsemi. Í þeim tilfellum þar sem félagsmenn stunda fleiri en eina búgrein er farið fram á að þeir skipti veltunni hlutfallslega á viðkomandi greinar.
Þegar uppfærð skráning á veltu ársins liggur fyrir um mitt ár eiga bændur von á endanlegu uppgjöri eftirstöðva tímabilsins.
Dæmi: Blandað bú með kýr og sauðfé er með 60 m. kr. veltu af landbúnaði án vsk. samkvæmt framtali 2020. Skiptingin er 50/10 og fellur búið undir veltuþrep í gjaldskránni 60-64,9 m. kr. þar sem árgjaldið er 375 þ. kr. eða 187 þ. kr. fyrir seinni hluta ársins 2021.
Hvað þarf að hafa í huga við skráningu?
- Upplýsingar um veltu eru samkvæmt framtali 2020, sem er velta ársins 2019.
- Skrá þarf veltu af allri landbúnaðarstarfsemi, þar með taldar beingreiðslur og styrki, án virðisaukaskatts.
- Undanskildir eru styrkir vegna landbótaverkefna þar sem þeir eru ætlaðir til að mæta útlögðum kostnaði.
- Hlunnindi þarf að meta í hverju tilfelli og hefur t.d. æðarrækt verið flokkuð sem landbúnaðarstarfsemi en ekki rekaviður.
- Ef miklar sveiflur eru á tekjum búsins milli ára, þá er heimilt að miða við meðaltal þriggja síðustu rekstrarára.
- Tekjur, sem eru ekki af beinni landbúnaðarstarfsemi, eru ekki teknar með. Dæmi um slíkt er söluhagnaður af seldum vélum, þjónustutekjur, s.s. vegna verktöku eða námskeiðshalds, leigutekjur af landi, veiði og húsnæði. Þá eru tryggingabætur og greiðslur vegna tjóna, s.s. frá Bjargráðasjóði og vegna riðuniðurskurðar, ekki teknar inn í veltutölur.
Ert þú með spurningar vegna félagsgjaldanna?
Fulltrúar BÍ svara fyrirspurnum í síma 563-0300 á skrifstofutíma. Hægt er að senda skilaboð í gegnum Bændatorgið og í netfangið bondi@bondi.is.