Beint í efni

Innflutningur á nautakjöti árið 2011 verulegur

21.02.2012

Árið 2011 nam innflutningur nautgripakjöts 434 tonnum en hérlend sala af nautgripakjöti á sama tíma u.þ.b. 2.699 tonnum (m.v. 70% nýtingarhlutfall fallþunga). Selt nautgripakjöt hér á landi árið 2011 var því 3.134 tonn miðað við framangreindar forsendur og hlutdeild innflutts nautgripakjöts því um 13,9% af heildarsölu ársins.

 

Samkvæmt innflutningsskýrslum frá Hagstofu Íslands kom nautakjötið innan fjögurra stærstu tollflokkanna (alls 428 tonn) frá 9 löndum. Þessir tollflokkar eru „Frystar nautalundir“ (64 tonn – þar af 55 tonn frá Þýskalandi), „Frystir nautahryggvöðvar“ (48 tonn – þar af 26 tonn frá Þýskalandi), „Frystir nautalærisvöðvar“ (85 tonn – þar af 42 tonn frá Hollandi) og „Annað fryst úrbeinað nautgripakjöt“ (231 tonn – þar af 110 tonn frá Hollandi).

 

Stærstur hluti nautakjötsins (innan framangreindra tollflokka) kom frá Hollandi eða 156 tonn, næst mest kom frá Þýskalandi (142 tonn) og þá frá Danmörku (74 tonn). Auk þessara landa kom nautakjöt til landsins (í framangreindum aðalflokkum) frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi, Austurríki, Litháen, Póllandi og Spáni/SS.