Beint í efni

Innflutningur á nautakjöti 53% minni í júní en í fyrra

24.08.2020

Framleiðsla og sala á íslensku nautakjöti hefur dregist lítillega saman fyrstu 6 mánuði ársins m.v sama tíma í fyrra, eða um rúm 4,5% (úr 2.416 tonnum í 2.306 tonn).  Innflutningur nautakjöts hefur á sama tíma dregist saman um rúm 20,6%, úr 556 tonnum í 316 tonn. Heildar sala og og innflutningur á nautakjöti hefur þannig dregist samtals saman um 7,9% á fyrri helmingi ársins 2020 miðað við sama tímabil í fyrra eða úr 2.815 tonnum í 2.623 tonn.

Hlutfallsleg skipting heildarsölu nautakjöts í innflutning og innlenda sölu árin 2017-2020

 

Árið hófst á samdrætti í sölu á innlendu kjöti, skv. eftirlitsniðurstöðum fyrrum Búnaðarstofu, meðan innflutningur var í aukningu í janúar. Síðan þá hefur verið stöðugur samdráttur í innflutningi sem náði hámarki núna, en í júní sl. var 53% minna flutt inn en í júní í fyrra.

Allir mánuðir fyrri helmings ársins hafa verið niður í innlendri sölu, utan mars mánaðar sem var eilítið upp.  Salan á innlendri framleiðslu hefur hins vegar haldið sér mjög vel samanborið við innflutning.

Einungis 2,5 tonna innflutningur af ófrosnu kjöti

Enn er innflutningur á ófrosnu kjöti lítill sem enginn, innan við tonn var flutt inn í júní sem gerir heildar innflutning á ófrosnu kjöti fyrri helming ársins 2020 innan við 2,5 tonn.  Það verður að teljast ótrúlega lítið miðað við hversu mikil áhersla var lögð á að heimila innflutning.

Hvað framhaldið ber í skauti sér er erfitt að meta, nýlegar vendingar vegna lokunar landamæra munu að öllum líkindum hafa áhrif en erfitt er að segja nákvæmlega til um það í hverju það felst.

Gera má hins vegar ráð fyrir því að aukinn tollkvóti á sama tíma og hrun í verði á tollkvóta muni gera innflutning fýsilegri á næstu mánuðum og því er ljóst að kúabændur þurfa að vera vakandi fyrir mögulegum breytingum í náinni framtíð.