
Innflutningur á mjólkurvörum þrefaldast
22.02.2018
Innflutningur á mjólk, mjólkur- og undanrennudufti og rjóma hefur meira en þrefaldast á milli áranna 2016 og 2017 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um innflutning á búvörum. Ljóst er að mikil aukning varð í þessum vörum í desember, því í nóvember var aukningin milli ára 279%, líkt og kom fram í Bændablaðinu í byrjun árs. Auk þessa hefur orðið töluverð aukning á ostainnflutningi og er aukningin 156% milli ára.

Tollasamningur Íslands og ESB tekur gildi 1. maí 2018
Ljóst er að framundan er frekari aukning á innflutningi á mjólkurvörum. Samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarafurðir, sem undirritaðir voru árið 2015, mun öðlast gildi 1. maí 2018. Þar eykur Ísland m.a. tollkvóta á ostum um 300 tonn og nautakjöti um 596 tonn á næstu fjórum árum.
Tollkvóti fyrir upprunaverndaða osta frá Evrópusambandinu fer úr 20 tonnum í 230 tonn og tekur strax gildi við gildistöku tollasamningsins í stað þess að aukast í skrefum á fjórum árum líkt og gildir um aðra vöruliði er samningurinn nær til.
Á móti eykur Evrópusambandið tollkvóta fyrir skyr úr 380 tonnum í 4.000 tonn, smjör úr 350 tonnum í 500 tonn og ost í 50 tonn svo dæmi séu tekin.