Indversk mjólkurframleiðsla í miklum vexti
08.03.2016
Við höfum áður greint frá því að mjólkurframleiðslan í Indlandi hefur verið í miklum vexti enda landið stórt og mannmargt, næst fjölmennasta land í heimi. Í dag er Indland stærsti framleiðandi á smjöri í heiminum og þar er jafnframt mesta neysla á smjöri í heimi en kúabændur landsins hafa jafnt og þétt aukið framleiðslu sína og hefur Indland því minna og minna þurft á innfluttum mjólkurafurðum að halda.
Þessi breytta framleiðslustaða hefur að sjálfsögðu haft sín áhrif á viðskipti á heimsmarkaðinum, en sem dæmi má nefna að árið 2011 voru flutt inn til landsins 32.000 tonn af undanrennudufti en fyrstu 11 mánuði síðasta árs nam heildar innflutningurinn aðeins rúmum 200 tonnum.
Uppgjörstímabilið 2014-2015 jókst mjólkurframleiðslan í Indlandi um 6,3% miðað við fyrra tímabil en til þess að setja þetta hlutfall í samhengi þá svarar það til 8,7 milljarða kílóa mjólkur á einu ári eða rétt tæplega heildar ársinnvigtun hollenska afurðarisans FrieslandCampina! Alls nam framleiðslan í Indlandi 2014-2015 146,3 milljörðum kílóa en það er í kringum þrefalt meira mjólkurmagn en t.d. kúabú í Nýja-Sjálandi framleiða á ári/SS.