
Indland: niðurgreiða lán til afurðastöðva!
13.10.2017
Indverska ríkisstjórnin hefur stofnað sérstakan framkvæmdasjóð sem mun á næstu 12 árum, eða fram til ársins 2029, hafa það hlutverk að styðja við uppbyggingu á þarlendri mjólkurframleiðslu. Um er að ræða heildarfjárfestingu upp á 180 milljarða íslenskra króna, en þeim verður sérstaklega varið til þess að bæta mjólkurgæði og tryggja betur innviði mjólkurframleiðslunnar sjálfrar með það að markmiði að efla verulega mjólkuriðnað landsins.
Sjóður þessi lánar afurðastöðvum landsins fjármagn á niðurgreiddum vöxtum til þess að fjárfesta í kælikerfum fyrir mjólk sem og til þess að byggja upp rannsóknaaðstöðu fyrir mjólkurgæðarannsóknir. Þess er vænst að þessi nýju hagstæðu framkvæmdalán indversku ríkisstjórnarinnar muni nýtast mjólkuriðnaði landsins afar vel og er talið að átaksverkefnið muni skapa 40 þúsund ný störf í landinu/SS.