Beint í efni

Ill meðferð nautgripa í Malasíu

17.05.2013

Ástralskir kúabændur eru uggandi þessa dagana yfir fregnum af illri meðferð á nautgripum í Malasíu, en undanfarin misseri hafa yfirvöld í Ástralíu hert verulega allt eftirlit með seldum lífdýrum frá landinu. Upphaf þessa eftirlits má rekja til ársins 2011 þegar upp komst um slæma meðferð á skepnum í Indónesíu sem síðar leiddi í ljós að víða annarsstaðar var pottur brotinn varðandi meðferð á seldum lífdýrum frá Ástralíu, sér í lagi í tengslum við slátrun þeirra.

 

Að þessu sinni voru það reyndar dýraverndarsamtök frá Ástralíu sem birtu myndbandsupptökur af hinni illu meðferð, en upptakan var gerð með falinni myndavél og sýnir bæði slæma meðferð á geitum og nautgripum við „sláturhús“. Ástralskir söluaðilar taka málið afar alvarlega enda bera þeir ábyrgð á því að meðferð á skepnum, sem seldar eru á fæti, sé góð óháð því hvar í heiminum viðkomandi skepna hafnar. Ástralía er eina landið í heiminum sem gerir kröfur um aðbúnað og meðferð á gripum utan landsins/SS.