IDF: 1 milljarður manna lifir og býr á kúabúum!
12.11.2011
Dagana 15.-19. október sl. var alþjóðleg mjólkurráðstefna haldin í Parma á Ítalíu á vegum IDF, alþjóðlegu mjólkursamtakanna. Mjólkursamsalan sendi tvo fulltrúa á ráðstefnuna, þá Bjarna Ragnar Brynjólfsson og Björn S. Gunnarsson. Á ráðstefnunni voru mörg fróðleg erindi er lutu m.a. að því sem viðvíkur mjólkurframleiðslu, landbúnaðarpólitík, næringarþáttum tengdum mjólk og mörgu fleiru.
Meðal þess sem fram kom á fundinum er að við Íslendingar erum í fremstu röð í drykkjarmjólkurneyslu, trónum raunar á toppnum ef neysla Evrópusambandsins er tekin saman í eitt meðaltal. Ef stök lönd innan Evrópusambandsins eru skoðuð kemur hins vegar í ljós að Finnland, Eistland og Írland liggja aðeins fyrir ofan okkur í neyslu drykkjarmjólkur. Við erum einnig ofarlega í neyslu smjörs (aðeins Sviss, Frakkland, Þýskaland, Lúxemborg, Eistland og Austurríki eru fyrir ofan okkur), og stöndum okkur enn betur í ostaneyslunni þar sem við erum í 3. sæti á eftir Frakklandi og Lúxemborg.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri áhugaverða fróðleiksmola af ráðstefnunni:
– 62% mjólkurframleiðslu heimsins fer til vinnslu í mjólkursamlögum
– Af tuttugu stærstu mjólkurfyrirtækjum heimsins eru 11 samvinnufélög
– Framleiðsla árið 2010 jókst mest í % í Vestur-Evrópu og í vesturhluta Tyrklands
– Áætlað er að 1 milljarður manna lifi og búi á mjólkurframleiðslubýlum
– Aðeins 11 lönd eru með meðalbú yfir 100 kýr
– Fóðurkostnaður er áætlaður 60-80% af kostnaði við mjólkurframleiðslu
– Auka þarf mjólkurframleiðslu heimsins um sem nemur framleiðslu Nýja Sjálands á hverju ári næstu 20 árin
– Um 21% mjólkurframleiðslu heimsins er í Evrópu
– Í Evrópu fækkar bændum stöðugt, en hjarðir og jarðir stækka
– Fyrri hluta þessa árs hefur mjólkurframleiðsla aukist verulega á suðurhveli jarðar. Um 12% á Nýja Sjálandi fyrstu fimm mánuði ársins og fyrstu sex mánuðina um 16% í Argentínu og 12,6% í Chile/SS-Mjólkurpósturinn.