Beint í efni

Íblöndunarefni til heyverkunar

28.05.2014

Á heimasíðu ráðgjafafyrirtækis breskra kúabænda, DairyCo, er að finna áhugaverða samantekt um íblöndunarefni til heyverkunar, bæði í stæðugerð og rúlluheyskap. Tilgangur íblöndunarefnanna er að hafa þau áhrif á verkunarferlið að sem allra mest af næringarefnunum í uppskerunni varðveitist frá hirðingu til gjafa. Með notkun þeirra má jafnframt stytta þurrktíma á velli og koma í veg fyrir verkunartap vegna útskolunar, öndunar, molnunar og gerjunar. Mikilvægt er þó að hafa í huga að íblöndunarefni gera ekki laka uppskeru að góðu fóðri, en eru mikilvægt hjálpartæki við að gera góða uppskeru að úrvals fóðri með hámarks lystugleika.

 

Hvort sem uppskeran er verkuð í stæðu eða rúllur, snýst ferlið um að tryggja hraða, loftfirrða gerjun mjólkursýrugerla sem lækka sýrustigið í fóðrinu sem hindrar frekara niðurbrot af völdum óæskilegra gerla, ger- og myglusveppa.

 

Helstu flokkar íblöndunarefna eru eftirfarandi:

 

Sérvirk gerjunarefni – inniheldur gerla á borð við Lactobacillus plantarum, Pediococcus og Lactococcus. Þessar tegundir stuðla að hraðari gerjun mjólkursýru og ná sýrustiginu fljótt niður í 4, sem kemur í veg fyrir frekara niðurbrot á sykrum og próteini í uppskerunni.

 

Breiðvirk gerjunarefni – inniheldur gerla á borð við Lactobacillus buchneri og Lacotbacillus brevis. Þessar tegundir gerja blöndu af mjólkur- og ediksýru, sem stuðlar að hægari gerjun en hinir fyrrnefndu. Breiðvirku blöndurnar hindra myglu og hitamyndum við gjafir.

 

Samsettar blöndur – hefur sama innihald og sérvirku efnin, auk sorbat og/eða benzoate sölt, sem hafa það hlutverk að hindra myglu- og hitamyndun.

 

Sýrur – yfirleitt maura- eða própíonsýra eða afleiður þeirra. Sýra uppskeruna beint þegar 3-4 lítrum er blandað í fóðrið. Hlutverk þeirra er að stöðva alla örverustarfsemi. Getur verið frekar dýr valkostur, auk þess sem þær valda tæringu. Þær koma helst að gagni við erfið veðurskilyrði eða þar sem uppskera er menguð af jarðvegi.

 

Melassi og sykrur – slíkum tegundum íblöndunarefna er ætlað að auka við gerjunarhráefni fyrir mjólkursýrugerlana. Rannsóknir hafa sýnt takmarkaða virkni slíkra efna og fremur er mælt með því að bæta slíku í fóðrið í snefilmagni við gjafir til að hækka orkuinnihald þess, ef nauðsyn krefur.

 

Á markaðnum eru misjafnar tegundir af íblöndunarefnum. Að jafnaði er reiknað með því að til að ná tilætluðum áhrifum þurfi 1 milljón gerla í hvert gramm fóðurs. Til að reikna út hvort notkunarleiðbeiningar framleiðandans standist, má styðjast við eftirfarandi formúlu:

  • Á umbúðunum kemur fram að þær innihaldi A grömm af íblöndunarefni, sem dugi til að meðhöndla B tonn af uppskeru.
  • Íblöndunarefnið inniheldur C fjölda gerla pr. gramm (CFU/g)
  • A * C fjöldi gerla dugar til að blanda í B tonn af uppskeru = D fjöldi gerla
  • D/B fjöldi gerla dugar í 1 tonn af uppskeru = E
  • Þannig að E/1.000.000 (fjöldi gramma í tonni) dugar á 1 gramm af uppskeru, sem ætti að vera a.m.k. 1.000.000.

Dæmi:

Pakkning (A) inniheldur 200 gr

Uppskera (B) 200 tonn 

CFU pr. gramm (C) 1012

 

A*C = heildarfjöldi gerla

200*1012 = 2*1014

 

D/B = CFU/tonn

1014/200 = 1012

 

E/1.000.000 = CFU/g

1012/1.000.000 = 1.000.000 CFU/g

 

Framangreind tegund, A, skilar samkvæmt þessu 1 milljón gerla á hvert gramm uppskeru sem ætti að skila tilætluðum árangri.

 

Kúabændur eru hvattir til að íhuga notkun á íblöndunarefnum í komandi heyskap; með þeim má auka lystugleika og fóðrunarvirði uppskerunnar umtalsvert, verkun verður jafnari og betri. Enda bendir flest til þess að þeir bændur sem hafa einu sinni „komist á bragðið“ með notkun íblöndunarefna, hætta því trauðla./BHB

 

Skýrsla DairyCo um íblöndunarefni í heyverkun