Beint í efni

Í kjölfar aðalfundar

06.04.2019

Það er með ólíkindum hvað tíminn flýgur og nú höfum við hist á enn einum aðalfundi okkar til að setjast niður til skrafs og ráðagerða. Í hvert sinn sem ég sting niður penna í tilefni þess, hefur mér fundist við hafa verið að lifa áhugaverðustu tímana. Það sýnir kannski svo ekki verður um villst að það er alltaf mikið um að vera í okkar málflokki, sjaldan lognmolla og verkefnin alltaf næg.

Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að félögum í LK hefur fjölgað um u.þ.b. 10% á milli aðalfunda og eru framleiðendur sem eru skráðir í félagið nú 431 talsins. Bændur eru greinilega staðráðnir í því að standa að baki hagsmunabaráttunni og kveinka sér ekki að leggja sitt að mörkum, svo við getum staðið saman í þeim verkefnum sem framundan eru. Fyrir þá samstöðu ber að þakka, enda er hún okkar sterkasta vopn.

 

Endurskoðun búvörusamninga
Þegar búvörusamningarnir, sem nú stendur til að endurskoða, voru gerðir á sínum tíma skapaðist mikil umræða sem klauf stéttina að nokkru leyti og bændur tóku sér stöðu ýmist með eða á móti kvóta, sem var nú kannski stærsti ásteytingarsteinninn. Eins og yfirleitt er í stórum málum sem mikið eru rædd, og margir hafa skoðun á, þá þroskast umræðan og  kemst á eðlilegra stig, gífuryrðin víkja og menn gefa sér betri og meiri tíma til að fara dýpra í hlutina. Hvað er það sem raunverulega er verið að segja, hver gætu áhrifin verið til lengri tíma, þjónar það sem við erum að gera hagsmunum stéttarinnar, hvaða áhrif hafa nýjar ákvarðanir á greinina? Menn setjast niður og rýna hlutina út frá mörgum sjónarhornum.

Þannig var þetta einmitt með umræðuna um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Menn settust niður og ígrunduðu málin þennan tíma frá því að samningarnir tóku gildi og þangað til að kosningin um framtíð kvótakerfisins fór fram nú í febrúar. Niðurstaðan úr þeirri rýni er algerlega skýr. Yfirgnæfandi meirihluti starfandi kúabænda kaus að viðhalda framleiðslustýringarkerfi byggðu á grunni kvótakerfisins. Það er búið að vera gaman og ákaflega lærdómsríkt að fylgjast með og taka þátt í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað  á þessum tíma sem liðinn er. Umræða sem leiðir að farsælli niðurstöðu getur tekið tíma, hún gerði það í okkar tilfelli og við sjáum hvar við stöndum í dag miðað við það ástand sem uppi var á sínum tíma. Okkur lánaðist að taka sameiginlega ákvörðun um gríðarstórt mál sem snýr að afkomu okkar og rekstraröryggi. Það er engum blöðum um það að fletta að nú stöndum við kúabændur sameinaðir um það sem framundan er.

En endurskoðun búvörusamninga felur fleira í sér en útfærslu á kvótakerfi og að koma skikki á viðskipti með framleiðsluheimildir. Einnig þarf að fara yfir aðra liði samningsins og meta hvernig markmið þeirra hafa gengið eftir. Endurmeta þarf skiptingu ríkisgreiðslna í samningnum og var aðalfundur LK sammála um nauðsyn þess að stöðva þá niðurtröppun á greiðslum út á greiðslumark sem skrifuð er í samninginn, til að tryggja að framleiðslustýringakerfið haldi. Fundarfulltrúar voru einnig sammála um að auka vægi gripagreiðslna og að stuðningur við nautakjötsframleiðslu skyldi aukinn.

 

Nautakjötsframleiðslan fær aukið vægi
Kjötmálin hafa fengið aukinn þunga í allri umræðu um nautgriparækt undanfarið. Nú búum við við þá ógn að verð til bænda fyrir nautakjöt hefur verið að lækka á sama tíma og verð hefur hækkað til neytenda. Þarna þurfum við að snúa vörn í sókn og hefja stórsókn í þessum málum. Um 22% þess nautakjöts sem við neytum hér á landi er innflutt, tollar hafa raunlækkað mikið á síðustu árum og er svo komið að tollmúrar halda ekki lengur. Stjórn LK hefur undanfarið rætt og unnið að því að koma á fót sérstöku stöðugildi svo mögulegt sé að leggja enn frekari áherslu á og einbeita sér að þessum málaflokki og var tillaga þess efnis samþykkt einróma á aðalfundinum.

Stórt skref, sem ég bind miklar vonir við, var stigið með byggingu einangrunarstöðvarinnar að Stóra Ármóti, þar sem holdakálfarnir vaxa og dafna. Nú í vikunni fóru þeir í sína reglulegu vigtun og mældist Draumur þeirra þyngstur eða 402 kíló! Þessir nýju gripir gefa okkur mun betri möguleika á að takast á við auknar áskoranir og vona ég að vel verði tekið í þegar þetta nýja erfðaefni fer að bjóðast bændum á haustdögum.

 

Sóknarfæri í menntun og rannsóknum
Annar málaflokkur sem við eigum klárlega sóknarfæri í er á sviði menntamála tengd landbúnaði. Því miður hefur það þróast þannig að okkur skortir sárlega einstaklinga sem leggja í nám á master- og doktorsstigi. Við þurfum að greina af hverju það er, það á að vera eftirsóknarvert að vinna við rannsóknir og þróun í atvinnugrein sem er í stöðugri sókn um allan heim – allir þurfa jú að borða. Fjárútlát til rannsókna á innlendum landbúnaði hafa því miður gefið eftir á undanförnum árum. Þarna getum við staðið okkur betur. Öllum ætti að vera ljóst að öflug rannsóknar- og þróunarvinna er líkleg til að skila sér á svo margan hátt. Við verðum að auka gróskuna í þessum málum og við sem stöndum í forsvari fyrir bændur verðum að sækja fram í þessum efnum og beita okkur við samningaborðið í komandi endurskoðun.

 

Félagskerfi bænda
Á þessum þremur árum sem ég hef tekið þátt í bændapólitíkinni hefur mér fundist mikill stígandi í félagskerfinu okkar. Með breyttu formi á fjármögnun kerfisins með niðurfellingu búnaðargjaldsins hafa orðið nokkrar jákvæðar breytingar. Þyngst telur þar, að mínu mati, aukið samstarf búgreinafélaganna. Þegar þrengir að fjárhagslega fara menn að hugsa öðruvísi, hvar er hægt að skera niður er gjarnan fyrsta spurningin. Aukið samstarf kemur svo fast þar á eftir þ.e. hvar erum við að tvítaka okkur í kerfinu, er mögulegt að vinna hlutina bara einu sinni og allir fá að njóta þess. Þarna finnst mér að Bændasamtökin hafi staðið sig vel sem samnefnari allra búgreina og hafa haldið þétt utanum nokkur mikilvæg hagsmunaverkefni sem kemur öllum búskap til góða. Það er nefninlega staðreynd að þegar á reynir þá er samtaðan svo mikilvæg og það er farið að renna upp fyrir sífellt fleirum að búgreinarnar allar eru hverri annarri háðar.

Nú er að störfum nefnd á vegum BÍ sem sett var saman til að endurskoða félagskerfi landbúnaðarins. Það er ljóst að við þurfum að taka til í kerfinu okkar, gera það skilvirkara og hagkvæmara í rekstri. Á nýliðnum Ársfundi Bændasamtakanna voru kynnt drög að vinnu sem nefndin hefur innt af hendi. Nefndinni er gert að leggja fram vinnu sína á Búnaðarþingi 2020. Ég tel afar mikilvægt að vel takist til í þessari vinnu og að henni lokinni gætum við átt enn sterkari Bændasamtök byggð á grunni búgreinafélaganna okkar, en einmitt þar liggja ræturnar og styrkurinn sem við búum yfir.

Við skulum einsetja okkur að nýta þau tækifæri sem bjóðast og halda ótrauð áfram veginn, berjast áfram fyrir bættum hag okkar bænda og umfram allt að standa saman í því sem framundan er.

Hranastöðum í apríl 2019
Arnar Árnason