Í Ísrael flóðmjólka kýrnar, síðari hluti
20.10.2012
Ísrael er lítið land en þó með um átta milljónir íbúa og er ráðgert að landið geti tekið við allt að 14 milljónum íbúa þegar fram líða stundir. Mjólkurframleiðsla landsins er að mörgu leiti byggð upp á sama hátt og hér á landi, þ.e. kvóti er reiknaður út frá innanlandsneyslu frá ári til árs og er stefna landsins að vera óháð innflutningi mjólkurvara. Alls eru kúabúin í landinu tæplega 1.000, kýrnar um 120 þúsund og meðalframleiðsla hvers bús um 1,4 milljónir lítra. Meðalafurðirnar eru jafnframt með því allra hæsta sem þekkist í heiminum.
Hér á eftir fer síðari hluti umfjöllunar um mjólkurframleiðslu þessa lands, en fyrri hlutinn birtist hér á vefnum 13. október sl.
Fjós í Ísrael
Fjósin í landinu eru í raun ekki stórmerkilega byggingar enda er tilgangur þeirra fyrst og fremst að veita kúnum skjól fyrir sólinni. Um 90% af kúnum eru í lausagöngufjósum og eru þessi fjós oft nánast veggjalaus og minna meira á sólhlýfar en fjós (sjá mynd). Í fjósunum eru stundum legubásar en oftast afar rúmgóð taðgólf, sem þarf að herfa tvisvar á dag til þess að halda þeim mjúkum og lausum í sér. Stundum þarf, vegna hita, að vökva taðgólfin svo gerjunin haldist í gangi. Að jafnaði er rýmið pr. kú 20 fermetrar sem er rúmlega tvöfalt á við það sem algengt er í Evrópu
Kælikerfi
Eins og áður segir er tilgangur fjósanna að verja kýrnar fyrir sólinni og vegna mikils hita ermikil áhersla lögð á kælingu kúnna til þess að koma í veg fyrir að þær lendi í hitastressi. Þetta er gert með því að vökva kýrnar á biðsvæði við mjaltakerfið og fóðurgang en sjaldan á legusvæðum en þar eru í staðinn oft blásarar sem sjá um að halda loftinu á hreyfingu.
Fóðrun kúnna er lykillinn
Lang flestir kúbændurnir fóðra kýrnar sínar með nokkuð einfaldri aðferðarfræði og má gróflega flokka aðferðinar í þrjá undirflokka: ein, tvær eða þrjár gróffóðurblöndur og fá kýrnar alltaf heilfóður.
Á bak við hugmyndafræðina um fóðrun kúa í Ísrael stendur dr. Ofer Kroll, sem er nú á áttræðisaldri en stjórnar þó enn fóðurráðgjöfinni af miklum móð. Kerfið sem hann hefur byggt upp virðist skila miklum árangri en hann hefur alla tíð lagt áherslu á að kýrnar fái einungis staðlaðað heilfóður, sem er nánast eins frá degi til dags. Þá er aldrei skipt um fóðurgerð hjá kúnum á miðju mjaltaskeiði. Nánar er hægt að lesa um ísraelskar áherslur varðandi efnainnihald gróffóðurs víða á veraldarvefnum.
Í fáum orðum má lýsa aðferðarfræði dr. Kroll þannig:
Ein gróffóðurblanda: Þannig samsett að næringarefnaþarfir 90% mjólkurkúnna eru uppfylltar. Hentar á öllum minni kúabúum.
Tvær gróffóðurblöndur: Þannig skipt að ein blanda er sérstaklega samsett fyrir nýbærur fyrstu 21-24 dagana. Hin blandan er svo fyrir síðari hluta mjaltaskeiðsins. Þetta fóðrunarkerfi hentar sérlega vel til þess að koma í veg fyrir efnaskiptasjúkdóma og hentar á meðalstórum búum.
Þrjár gróffóðurblöndur: Eins byggt upp og aðferðin með tvær gróffóðurblöndur en á síðari hluta mjaltaskeiðs, þ.e. eftir 21-24 daga, eru kýrnar flokkaðar í hámjólka og lágmjólka hópa og taka svo gróffóðurblöndurnar tillit til þessara tveggja flokka af kúm. Þessi blanda hentar fyrir stór kúabú.
Samvinna um fóðurblöndun
Ef fara á eftir aðferðarfræði dr. Kroll geta málin vandast nokkuð því erfitt er fyrir einstök kúabú, jafnvel hin stærri, að útbúa alltaf eins heilfóður fyrir kýrnar allt árið um kring.
Hvað gera bændur þá? Jú þeir stofna einskonar gróffóðurstöðvar sem sjá um alla heilfóðurblöndugerð, geymslu á fóðri, kaup á auka hráefnum ofl. Þetta eru hálfgerðar afurðastöðvar í heilfóðurvinnslu sem kaupa hráefni af kúabændunum s.s. gras, maís, korn, mykju oþh. en bóndinn kaupir svo af þessu félagi staðlað heilfóður sem afurðastöðin bæði sér um að blanda og afgreiða daglega eða oft á dag til viðkomandi. Í raun er það því þannig að heyskapur er að hluta til á ábyrgð bóndans en annars sér afurðastöðin um þetta fyrir hann, sem og að keyra fóðrinu frá búinu og að afurðastöðinni.
![]() |
Tiltölulega fáar gróffóðurstöðvar eru í landinu, en þeim mun stærri enda þarf fóðrið að duga í tug þúsundir kúa |
Hver og einn bóndi hefur s.s. lítið um það að segja hvernig gróffóðrið er og fær einfaldlega nákvæmlega sama heilfóður og allir aðrir fá afgreitt. Þá getur bóndinn einnig fengið fóðrið afhent beint inn á fóðurgang samkvæmt samningi og því þarf hann ekki einusinni að eiga sinn eigin fóðurvagn. Margir telja að einmitt þetta einsleita heilfóður sem stór hluti búanna í Ísrael fá, sé skýringin á þeim feiknarlega góða árangri sem búin eru að ná í afurðasemi.
Sem dæmi um afurðasemina þá eru afurðahæstu kýrnar að skila í kringum 18.000 lítrum á ári (305 daga nyt, orkuleiðrétt) og afurðahæstu búin eru með um og yfir 14 þúsund lítra (305 daga nyt, orkuleiðrétt).
Þá er lögð mikil áhersla á að ýta fóðrinu að kúnum oft á dag (allt að átta sinnum daglega) og að fóðra á minni búum einu sinni daglega en oftar á stærri búum.
Dýralækna- og ráðgjafaþjónusta
Hachaklait heitir samvinnufélag þorra kúabændanna í Ísrael sem á og rekur dýralækna- og ráðgjafastarfsemi. Félagið var stofnað árið 1919 sem samvinnutryggingafélag um lyfjakaup, en þróaðist svo í átt að ráðgjöf og þjónustu. Hjá Hachaklait starfa aðallega dýralæknar og að félaginu standa 86% kúabúa landsins.
Gott dæmi um þá miklu samstöðu sem ríkir meðal ísraelskra kúbænda er sú staðreynd að bændurnir gera fastan þjónustusamning við Hachaklait sem innifelur fast gjald pr. grip og borga allir það sama, séu búin í sama stærðarflokki:
– sé búið með 1-40 dýr kostar það 4 dollara á hvert dýr í hverjum mánuði eða 5.891 krónu á ári.
– sé búið með 41-700 dýr kostar það 3 dollara á hvert dýr í hverjum mánuði eða 4.418 krónur á ári.
– sé búið með >800 dýr kostar það 2 dollara á hvert dýr í hverjum mánuði eða 2.945 krónur á ári.
Innifalið í gjaldinu er svo öll þjónusta, hverju sem hún nefnist og á hvaða tíma sem er. Skyndiútköll, fyrirbyggjandi þjónusta og allt þar á milli er innifalið. Við þetta bætist svo lyfjakostnaður, en kúabændurnir fá þau á heildsöluverði að viðbættum fyrningarkostnaði.
Á sum bú þarf að koma sjaldan en önnur oftar eins og gerist og gengur, en allir borga þó það sama. Skýringin felst í vilja bændanna til þess að allir nái árangri. Þurfi einhver bóndi oftar á því að halda að fá aðstoð, fær hann hana svo um munar og þannig þarf vonandi ekki að aðstoða viðkomandi eins oft í framtíðinni.
Heimildir
Efni frá kynningarfundi Videncentret for landbrug í Danmörku um fræðsluferð nokkurra starfsmanna til Ísrael 2.-7. september 2012/SS
Ársskýrsla Landssamtaka ísraelskra kúabænda 2011