Beint í efni

Í Ísrael flóðmjólka kýrnar, fyrri hluti

13.10.2012

Ísrael er lítið land en þó með um átta milljónir íbúa og er ráðgert að landið geti tekið við allt að 14 milljónum íbúa þegar fram líða stundir. Mjólkurframleiðsla landsins er að mörgu leiti byggð upp á sama hátt og hér á landi, þ.e. kvóti er reiknaður út frá innanlandsneyslu frá ári til árs og er stefna landsins að vera óháð innflutningi mjólkurvara. Alls eru kúabúin í landinu tæplega 1.000, kýrnar um 120 þúsund og meðalframleiðsla hvers bús um 1,4 milljónir lítra. Meðalafurðirnar eru jafnframt þær hæstu sem þekkist í heiminum.

 

Hér á eftir fer fyrri hluti umfjöllunar um mjólkurframleiðslu þessa lands, þar sem m.a. verður leitað skýringa á þessum eftirtektarverða árangri kúabændanna með kýrnar sínar.

 

95% lands í eigu ríkisins

Landið sjálft er 20.700 ferkílómetrar, 424 kílómetrar að lengd og frá 15 og upp í 114 kílómetrar að breidd. Byggð er þéttust við strendur landsins enda eru landgæði afar ólík innan þessa litla lands, allt frá grösugum dölum og upp í eyðimerkur en um 50% alls lands er skilgreint sem eyðimörk (þ.e. með minna en 200 mm úrkomu á ári). Úrkoma innan landsins er mjög misjöfn eða frá 20 mm og upp í 1.000 mm og er aðgengi að vatni eitt helsta vandamál landsins.

 

Landhæð er einnig gríðarlega ólík en dauðahafið er í 390 metra „hæð“ neðan við sjávarmál, en hæstu fjallgarðar eru 2.200 metra háir. Hitastig er, auk aðgengis að vatni, áskorun en í ágúst er hitinn 29-39 gráður og í janúar 4-20 gráður. Frost þekkist varla í Ísrael og því síður snjór. Vegna mikilla sumarhita er kúm yfirleitt ekki haldið á sumrin enda fellur fanghlutfallið mikið þegar hitinn er mestur, eða allt niður í 10-15%.

 

Athyglisvert er að 95% alls lands er í eigu ríkisins og gera bændur langtímaleigusamninga við hið opinbera um landleigu.

 

Moshav og Kibbutz

Gróflega má flokka mjólkurframleiðslu landsins í tvær megin gerðir. Annars vegar búgerðina Moshav (fjölskyldubú) og hinsvegar Kibutz (samyrkjubú).

 

Moshav búin eru um 800 talsins og á þessum búum eru 40-200 kýr alla jafnan. Þessi bú standa undir 43% landsframleiðslunnar og eru byggð upp með áþekkum hætti og þekkist víða í Evrópu, þ.e. út frá einskonar sameiginlegri miðju (sjá mynd).

 

  

Kibutz samyrkjubúin eru 163 (árið 2011) og rekin af 43 félögum. Á þessum búum eru 300-1000 kýr og standa búin undir 57% landsframleiðslunnar.

 

Þróun á fjölda búa í Ísrael er afar áþekk því sem þekkist í Evrópu, þeim hefur fækkað undanfarin ár og þau stækkað. Undanfarin ár hefur heldur dregið úr fækkuninni (sjá meðfylgjandi mynd).

 

  

Með kvótakerfi

Árskvóti landsins er um 1,4 milljarðar lítra og er hann reiknaður út frá innanlandsneyslu á fitu og próteini rétt eins og hér á landi. Kvótinn er reiknaður í lítrum mjólkur en byggir á föstu hlutfalli á fitu (3,7%) og próteini (3,31%) en þetta hlutfall er endurreiknað ársfjórðungslega. Afurðastöðvaverðið er svo reiknað út frá verðmætaefnum mjólkurinnar í hlutföllunum 35% fita og 65% prótein en hið opinbera tryggir alltaf sk. lágmarksverð mjólkur sem er núna 0,5 dollarar (um 61 króna/líterinn) en afurðastöðvaverðið nú er þó hærra eða um 75 krónur/líterinn.

 

Hinn ísraelski kúabóndi

Þegar mjólkurframleiðslan í Ísrael er skoðuð kemur afar margt áhugavert í ljós. Kúabændurnir eru óvenju vel menntaðir, flestir með BS gráðu frá háskóla, mjög tæknisinnaðir og sækja mikið í nýjungar. Eftirlit með gripum byggir á hjarðeftirliti þar sem hugbúnaður og tölvutækni ræður för, t.d. er eftirlit með beiðsli nær eingöngu byggt á beiðslisgreiningartækni en ekki sjónmati. Þá er eftirtektarvert hve opnir bændurnir eru fyrir aðgengi annarra að þeirra gögnum og leiðum til árangurs. Síðast en ekki síst ber að nefna samvinnu bændanna, en hún er einstæð á heimsvísu, sér í lagi á sviði gróffóðurvinnslu og dýralæknaþjónustu sem m.a. verður kynnt í síðari hluta umfjöllunarinnar.

 

Hinar ísraelsku kýr

Hinar ísraelsku kýr eru svartskjöldóttar, rétt eins og í svo mörgum öðrum löndum. Afurðastigið er hinsvegar óvenju hátt á landsvísu eða 12.145 kg/árskúna (305 daga nyt árið 2011, orkuleiðrétt) eða rúmlega tvöfaldar meðalafurðir íslenskra kúa. Mjaltaskeiðsnytin er hinsvegar hærri eða 13.279 kg (orkuleiðrétt), en skýringin á þessum mun felst eðlilega í því að mjaltaskeið kúnna í Ísrael er að jafnaði lengra (362 dagar) en þeir 305 dagar sem alltaf er miðað við þegar meðalnyt er borin saman á milli landa.

 

Þá er þátttaka búanna í skýrsluhaldi eftirtektarverð en rúmlega 94% allra kúa landsins eru skýrslufærðar. Þessar kýr eru nokkuð hefðbundnar svartskjöldóttar kýr, um 6-700 kg að þyngd og mjólka að jafnaði um 2,7 mjaltaskeið. Fituhlutfall mjólkurinnar er að jafnaði 3,62, sem er vel að merkja mjög lágt, en hinsvegar er próteinhlufallið 3,22.

 

Kýrnar bera að jafnaði 24 mánaða og sökum mikilla afurða og hita að sumri, þá líða að jafnaði 89-96 dagar frá burði fram að því að þær festa fang. Geldstaða er hinsvegar nokkuð hefðbundin eða 50-70 dagar.

 

Í síðari hluta umfjöllunarinnar, næsta laugardag, verður fjallað um fjósgerðir og aðbúnað kúa í Ísrael, fóðrun og aðferðir við fóðurblöndun sem ísraelskir kúabændur nota og margir telja að sé lykillinn að hinum einstæða árangri sem þeir hafa náð. Þá verður einnig fjallað um afar áhugaverða uppbyggingu á ráðgjafa- og dýralæknaþjónustu, en hún er rekin af einu samvinnufélagi í eigu bænda/SS.