Beint í efni

Hvetja til innflutnings á sæði úr holdanautum

27.03.2010

Aðalfundur LK ályktaði nú fyrir skömmu um ástandið á kjötmarkaðinum. Lýsir fundurinn þungum áhyggjum af afkomu nautakjötsframleiðslunnar, en á undanförnum árum hafa dunið yfir hana gríðarlegar kostnaðarhækkanir, einkum í formi hækkana á aðföngum. Verð til framleiðenda hefur staðið í stað síðustu tvö ár og ljóst er að afkoma þessarar framleiðslu fer hratt versnandi. Knýjandi er að bæta hagkvæmni framleiðslunnar og í því sambandi hvetur fundurinn m.a. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum erlendis í þeim tilgangi.

 

Ályktunin fylgir hér með í heild sinni:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, lýsir þungum áhyggjum af afkomu nautakjötsframleiðslunnar. Á undanförnum árum hafa dunið yfir hana gríðarlegar kostnaðarhækkanir, einkum í formi hækkana á áburði og fóðri. Verð til framleiðenda hefur staðið í stað síðustu tvö ár og á undanförnum áratug hefur raunverð til framleiðenda lækkað um rúmlega fjórðung. Því er ljóst að afkoma þessarar framleiðslu fer hratt versnandi. Fundurinn hvetur stjórn LK að gæta að hagsmunum greinarinnar til að tryggja áframhaldandi tilvist hennar. Einnig er orðið knýjandi að endurnýja erfðaefni hérlendra holdanautakynja og hveturfundurinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir að mögulegt verði að flytja inn holdanautasæði frá viðurkenndum einangrunarstöðum erlendis í þeim tilgangi.

 

Greinargerð.

Framleiðsla og sala nautgripakjöts hefur haldist í góðu jafnvægi síðustu mánuði og hafa þessar afurðir náð að halda hlutdeild sinni á markaði, þrátt fyrir mikið framboð annara kjöttegunda. Árið 1994 voru Angus og Limousine holdakynin flutt til Íslands á formi fósturvísa, en ástæða innflutningsins var að “fá gripi með betri og hagkvæmari kjötframleiðslueiginleika”. Tilraunir hafa sýnt að þessar væntingar hafa gengið fullkomlega eftir.Í upphafi voru fluttir inn tveir systkinahópar. Nú, 16 árum síðar er skyldleikaræktarhnignun farin að gera verulega vart við sig í holdahjörðum bænda. Ekki er mögulegt fyrir bændur að fá nýtt blóð í hjarðirnar, þar sem hjarðirnar samanstanda af því erfðaefni sem þegar hefur verið flutt inn. Þessi staða er farin að standa rekstrarhæfni búanna verulega fyrir þrifum. Auk þess hafa orðið miklar framfarir í ræktun kynjanna erlendis á þeim tíma sem liðinn er frá innflutningi, ávinnings af þeim framförum njóta hérlendir holdanautabændur ekki að neinu leyti.  Ljóst er að sú aðferðafræði sem viðhöfð var við innflutninginn árið 1994 er gríðarlega kostnaðarsöm. Fyrir liggur að efnahagslegt svigrúm fyrir innflutning af slíku tagi er mjög takmarkað.Núverandi lagarammi um innflutning á erfðaefni búfjár heimilar ekki aðra aðferðafræði en þá sem að framan er greind. Nýlegar breytingar á lögum um innflutning búfjár og erfðaefnis þeirra heimila innflutning á svínasæði til notkunar á hérlendum svínabúum. Eðlilegt er að slíkar lagabreytingar nái einnig til innflutnings á djúpfrystu holdanautasæði.