
Hvetja kúabændur til þátttöku í umræðum
29.01.2018
Í Bretlandi hefur neikvæð umræða um kúabúskap farið heldur vaxandi og andstaða gegn búfjárhaldi aukist. Margir neytendur þar í landi borða ekki lengur kjöt og drekka ekki mjólk og hafa sumir í þessum hópi neytenda farið offörum á samfélagsmiðlum þar sem hefðbundinn búskapur er talaður niður. Almenningur virðist vera afar áhugasamur um neikvæðar fréttir og alþekkt er að til að vega upp á móti einni neikvæðri frétt þarf í raun margar jákvæðar svo á brattan er að sækja.
Nú hafa bresku bændasamtökin ákveðið að við þetta verði ekki búið lengur og að það þurfi að snúa vörn í sókn og það verði best gert með virkri þátttöku bændanna sjálfra. En að taka þátt í umræðum á hefðbundnum samfélagsmiðlum getur verið afar erfitt og varasamt því auðvelt er að lenda í „argaþrasi“ við fólk sem tekur engum rökum. Bresku bændasamtökin hafa því nú búið til sérstaka heimasíðu þar sem bændur geta lært að svara fyrir sig, lesið sér til og fengið góð rök fyrir málstað sínum og fengið góð ráð varðandi hvenær sé rétt að taka þátt í umræðum og jafnvel hvenær sé rétt að draga sig í hlé frá umræðum og fleira í þessum dúr. Þetta efni á afar vel við hér á landi einnig og því upplagt að kynna sér efni heimasíðunnar sem heitir í snörun okkar „segðu það eins og það er“ eða „tell it like it is“. Hér er slóð á þessa síðu sem hægt er að smella beint á: www.tellitlikeitis.co.uk/SS.