Beint í efni

Hversu algengir eru þríkelfingar?

18.05.2010

Á vef héraðsfréttablaðsins Skessuhorns kom fram í gær að kýrin Fýla í Þverholtum á Mýrum hefði borið þremur kálfum, tveimur kvígum og einu nauti, aðfararnótt laugardagsins síðasta.  Í rannsókn sem undirritaður vann í janúar 2001 um vanhöld kálfa, voru gögn úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar yfir 8 ára tímabil lögð til grundvallar. Þar var um að ræða skráningar á tæplega 160.000 burðum. Á þessu tímabili voru skráðir átta burðir þríkelfinga, svo nærri lætur að slíkt gerist í einu tilfelli af hverjum 20.000 burðum, eða u.þ.b. einu sinni á ári hér á landi. Tvíkelfingar eru mun algengari, en hlutfall þeirra hefur á undanförnum árum verið í kringum 1%.

Hér er að finna grein í Livestock Science um fjölskyldu nautgripa á Nýja-Sjálandi sem þekkt var fyrir óvenjuhátt hlutfall þríkelfinga, hefur etv. búið yfir hliðstæðu frjósemisgeni og þekkist í sauðfé hér á landi, sk. Þokugen. Ættmóðirin Treble kom í heiminn árið 1993 og bar þrisvar þríkelfingum um dagana.