Beint í efni

Hvernig vilja Norðmenn auka nautakjötsframleiðsluna?

19.02.2013

Síðast liðinn fimmtudag kom út í Noregi skýrsla nefndar sem landbúnaðarráðherra Noregs setti á fót í október sl. Nefndinni var ætlað það hlutverk að fara yfir stöðu nautakjötsframleiðslunnar og koma með tillögur að mögulegri aukningu hennar, en staðan þar í landi er sú að um 20% af nautakjötinu sem þarlendir neyta er flutt inn frá öðrum löndum. Þar af er tollkvóti fyrir um 10% af neyslunni en 10% neyslunnar, nálægt 10.000 tonn, þarf að flytja inn til viðbótar við tollkvótann. Miðað við stöðuna í dag, þarf um 30-40.000 holdakýr til framleiðslu á þessum 10.000 tonnum sem uppá vantar.  

 

Ástæðan fyrir samdrætti í nautakjötsframleiðslunni er fyrst og fremst vegna fækkunar í mjólkurkúastofninum, en um 75% af framleiðslunni kemur frá mjólkurkúm. Á síðustu 10 árum hefur meðalnyt í Noregi aukist um 1.000 kg og er nú 7.300 kg pr. árskú. Mjólkurkvótinn hefur ekki aukist tilsvarandi, þannig að færri kýr þarf til að uppfylla hann. Skýrsluhöfundar sjá fyrir sér að þessi þróun haldi áfram með auknum hraða næstu árin og því sé svigrúm til að fjölga holdakúm um 40-80 þúsund fram til ársins 2025. Með því móti megi anna eftirspurn á innanlandsmarkaði eftir nautakjöti.

 

Helstu atriði sem nefndin bendir á til skemmri tíma eru:

 

 • Auka fallþunga – nokkur hluti gripanna kemur of léttur til slátrunar
 • Auka ásetning nautkálfa til kjötframleiðslu.

Til lengri tíma:

 • Bæta frjósemi – fjölga fæddum kálfum pr. árskú
 • Auka blendingsrækt og sæða fleiri mjólkurkýr með sæði úr holdanautum. Í dag eru 2% mjólkurkúnna sæddar með holdasæði, en skýrsluhöfundar meta svigrúmið til þess a.m.k. 8%. Kyngreint sæði skapar nýja möguleika í þessum efnum.

Til að ná framangreindum markmiðum telja skýrsluhöfundar mikilvægt að:

 • Efla faglegan styrk greinarinnar, sem bætir gæði framleiðslunnar og afkomu hennar.
 • Horft verði sérstaklega á þyngstu útgjaldaliðina. Þar vegur fóður og fóðrun langþyngst.
 • Stuðningskerfið verði endurskoðað, þannig að það ýti frekar undir framleiðslu heldur en búfjárhald.

Til að stækka holdagripastofninn er einnig mikilvægt að:

 • Þróa hagkvæmar lausnir varðandi byggingar og aðstöðu.
 • Auka stuðning við fjárfestingar og fjármögnun vegna bygginga og gripakaupa.

Grundvallar atriði í nautakjötsframleiðslunni, sem og allri annarri framleiðslu er viðunandi afkoma framleiðenda. Skýrsluhöfundar meta það svo að nokkuð sé í land með að hún sé viðunandi í dag og þurfi að batna umtalsvert, ef búast eigi við aukningu í framleiðslunni. Hluta af afkomubata megi ná í gegnum bætta búskaparhætti og breytinga á stuðningskerfi. Möguleika á að ná auknum verðmætum út úr markaðinum verði einnig að nýta. Þrátt fyrir þetta, meta skýrsluhöfundar það svo, að auka verði við heildarstuðning við nautakjötsframleiðsluna ef viðunandi afkoma eigi að nást.

 

Til að ná betra verði á markaði leggur nefndin eftifarandi til:

 

 1. Aukin og jafnari kjötgæði, sterkari markaðssetning.
 2. Efling vörumerkja.
 3. Markviss vöruþróun í gegnum alla virðiskeðjuna.
 4. Hagnýta og þróa næringarfræðilegt forskot norskrar nautakjötsframleiðslu – m.ö.o. að norskt nautakjöt verði betra og hollara en annað nautakjöt.

Þá leggur nefndin til fjölda atriða á sviði ráðgjafar og framleiðsluskipulags, að mjólkurframleiðendum sem hætta vilja mjólkurframleiðslu verði gert eftirsóknarvert að stunda nautakjötsframleiðslu, efla kynbótastarf á sviði nautakjötsframleiðslu, efla skipulag með verslun lifandi gripa og farið verði í þriggja ára verkefni að fylgja árherslum og tillögum eftir.

 

Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan./BHB

 

 

Skýrsla ráðherraskipaðrar nefndar í Noregi um aukningu nautakjötsframleiðslunnar.