Hvernig þróaðist neyslan í Noregi?
05.03.2014
Í ljósi mikillar söluaukningar á fituríkum mjólkurafurðum hér á landi á undanförnum mánuðum, vaknar sú spurning hversu lengi sú þróun muni halda áfram. Er þá títt horft til Noregs, þar sem einnig hefur orðið mikil aukning í sölu á smjöri og rjóma. Á heimasíðu norsku upplýsingaskrifstofunnar fyrir mjólkurafurðir, melk.no má nálgast greinargóðar upplýsingar um þróunina þar í landi undanfarin ár.
Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig sala á rjóma, mælt í kg á íbúa hefur þróast frá 2007 til 2013. Árið 2007 var salan 4,9 kg/íbúa á ári, á árabilinu 2008-2010 var salan um 5,7 kg á íbúa en árið 2011 varð hún 6,4 kg/íbúa. Það sama ár var tíðarfar til gróffóðuröflunar mjög óhagstætt í Noregi, sem leiddi af sér samdrátt í mjólkurframleiðslu og lækkandi fituhlutfall innleggsmjólkur. Við lækkandi fituhlutfalli var brugðist með því að breyta samsetningu á kjarnfóðurblöndum og leggja aukna áherslu á vægi fitunnar í greiðslum á afurðaverði. Undanfarin tvö ár hefur neysla á rjóma verið nokkuð stöðug, um 6,2 kg/íbúa.
Sala á smjöri hefur einnig vaxið umtalsvert í Noregi. Árið 2007 var hún 2,1 kg/íbúa, var komin í 2,4 kg á íbúa árið 2011 en tók stökk í 2,8 kg á íbúa árið 2012 og hefur haldist stöðug síðan, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Það er því ekki annað að sjá en að þessar neyslubreytingar séu komnar til að vera hjá frændum okkar Norðmönnum./BHB
Heimild: www.melk.no/meierifakta