Beint í efni

Hvernig munu kúabændur fjármagna félags- og framfaramál?

10.06.2017

Það urðu tímamót í félagskerfi bænda um síðustu áramót þegar hætt var innheimtu búnaðargjalds af veltu íslenskrar búvöruframleiðslu. Á einni nóttu urðu hagsmunafélög bænda, það er Bændasamtök Íslands, búgreinasamtökin, ásamt búnaðarsamböndum, Bjargráðasjóði og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins að sjá á eftir fjármagni sem kom til þeirra vegna innheimtu á búnaðargjaldi. Þetta gjald, eða skattur sem innheimtur var, nam 1,2% af gjaldstofni sem ákvarðaðist af veltu búvöruframleiðslu og tengdrar starfsemi. Árið 2016 nam þessi upphæð 531.000.000,- kr sem svo skiptist þannig að BÍ fékk 137.657.400,- kr , búnaðarsamböndin fengu 33.399.900,-, RML fékk 150.357.000,-, búgreinasamtök fengu 154.680.300,- og Bjargráðasjóður fékk 54.905.400,-.

 

Félagsaðild að LK
Eftir að innheimtu búnaðargjalds var hætt eru þessir peningar því til ráðstöfunar hjá hinum einstaka bónda, sem er vonandi gott fyrir hans rekstur. En þýðir þetta að við bændur séum lausir við að þurfa að fjármagna félagsstarf okkar? Vonandi hugsar enginn bóndi svo. En hvert á umfangið á félagsstarfinu að vera, hvað má það kosta og hver eiga kjör þeirra sem þessu sinna að vera? Við sem erum í forsvari fyrir Landssamband kúabænda (LK) erum stöðugt að velta þessu fyrir okkur, en höfum ekki fundið hið endanlega svar ennþá. Kúabændur svara þessari spurningu best sjálfir með því að ganga til liðs við LK og láta rödd sína heyrast. Það er þeim nauðsynlegt vegna þess að hagsmunir þeirra sem stunda mjólkurframleiðslu eru mjög miklir og við verðum að muna að mjólkurframleiðslan er hryggjarstykkið í íslenskum landbúnaði. Í verkskiptu þjóðfélagi nútímans verða kúabændur, eins og aðrir hagsmunahópar í þjóðfélaginu, að eiga öflugt hagmunafélag sem allir eiga helst að taka þátt í. Þess vegna eiga kúabændur að líta á það eins og hverja aðra fjárfestingu í sínum rekstri að ganga í LK, rétt eins og að t.d. halda við ræktun eða útihúsum til að reksturinn gangi sem best. Þeir kúabændur sem velja að standa fyrir utan og taka ekki virkan þátt í starfi LK með þátttöku sinni munu samt njóta ávinnings af starfi þess án þess að leggja nokkuð til, sem sagt fá frítt far. Við erum fámenn í þessari starfsgrein og þurfum á öllum að halda til að geta haldið uppi öflugri hagmunagæslu fyrir kúabændur og íslenska mjólkurframleiðslu.

 

Fjármögnun þekkingar og framfara
En aftur að fyrrverandi búnaðargjaldi, þessum rúma hálfa milljarði króna sem innheimtur var af veltu búvöru og myndaði nokkuð stóran sjóð sem hefði mátt nota til framfara fyrir landbúnaðinn sem svo nýttist öllu þjóðfélaginu. Getur verið að það hafi verið röng og vanhugsuð aðgerð að leggja niður þessa innheimtu án þess að nokkuð kæmi í staðinn? Allavega vakna margar spurningar um það hvernig við ætlum að framkvæma ýmis framfara mál án þess að hafa til þess fjármagn. Stór hluti af búnaðargjaldinu fór í fjármögnun á félagskerfi bænda sem var talið ólöglegt og viðbrögðin við því voru að hætta innheimtunni án frekari umræðu. Þarna réð að mínu mati skammsýni og skortur á hugmyndum hvernig nýta hefði mátt þetta fjármagn. Þess ber þó að geta að stjórn LK lagði fyrir aðalfundi LK á árunum 2009, 2010, 2011, 2012 og 2014 tillögur um innheimtu búnaðargjalds sem allar voru samþykktar þar sem hvergi er minnst á að hætta innheimtu þess; beinni um ráðstöfun til einstakra aðildarfélaga skyldi hætt og gjaldið lækkað, en það sem eftir stæði færi í búgreinaskiptan sjóð og ráðstafað í takt við óskir hverrar búgreinar í samræmi við lagaheimildir. Tillögurnar frá LK á þessum árum gáfu fullt tilefni til þess að þær yrðu umræðugrundvöllur um hvernig við gætum notað þetta fjármagn til framfara fyrir landbúnaðinn.

Segjum sem svo, að 3-400 milljónir kr. sem landbúnaðurinn greiddi í búnaðargjald væri til ráðstöfunar fyrir landbúnaðinn og bændur sjálfir hefðu um það að segja hvernig þessum peningum væri varið. Þannig gætu mörg tækfæri skapast til að skipuleggja rannsóknir og fræðslustarf sem kæmu landbúnaðinum til góða á komandi árum. Við höfum margar fyrimyndir af skipulagi þar sem málum er þannig háttað að velta landbúnaðarframleiðslunnar er skattlögð og lögð í sjóði sem síðan eru nýttir til framfara; slíkt tíðkast m.a. á Norðurlöndunum (Mælkeafgiftsfonden), Bretlandseyjum (Agriculture and Horticulture Development Board) og Nýja-Sjálandi (DairyNZ) og víðar. Hver búgrein myndi þá leggja hlutfall af sinni veltu í sjóðinn sem síðan myndi hafa um það að segja hvernig fjármunum úr sjóðnum yrði ráðstafað. Í tilfelli nautgriparæktarinnar yrði upphæðin vel á annað hundrað milljónir kr. árlega. Slíkt fyrirkomulag eykur áhuga og getu búgreinanna til að hlutast til um hvernig fjármunum er varið til hinna ýmsu verkefna. Aukið fjármagn verður til þess að hægt er að ráðast í stærri og flóknari verkefni sem vekur væntanlega áhuga hjá fleirum og mun draga að ungt og dugmikið fólk, sem brýn þörf er á. Kosturinn við að landbúnaðurinn eigi sjálfur sjóðinn og að hlutfall af verðmæti landbúnaðarafurða myndi þennan sjóð er að það verður til stöðugt tekjustreymi. Stöðugar tekjur eru mjög mikilvægar í öllu rannsóknar og þróunarstarfi, vegna þess að slík starfsemi krefst langtímahugsunar og hentar því ekki þeirri skammtíma hugsun sem oftast fylgir pólitískri umræðu stjórnmálaflokka á stuttu kjörtímabili eða í nokkurra vikna kosningabaráttu.

Núverandi fyrirkomulag vanmegnugt
Núna er staðan þannig að landbúnaðurinn hefur í fáa sjóði að sækja um fjármagn til rannsókna og þróunarstarfs. Þeir sjóðir sem til eru hafa ekki yfir miklu fjármagni að ráða og eru þar af leiðandi mjög vanmegnungir til að veita það fjármagn sem til þarf til að eitthvað verði úr hlutunum. Þessir sjóðir eru meira eða minna háðir framlögum frá ríkinu og þar með pólitískum ákvörðunum Alþingis hverju sinni. Það er slegist um hverja krónu sem til skiptanna er, þannig að það er freistandi deila þessu takmarkaða fjármagni til sem flestra og á mörgum stöðum verða þetta lágar upphæðir og lítils gagns. Þannig er staðan í rannsóknar og þróunarstarfi landbúnaðarins þessa dagana.

Ef okkur bæri gæfa til að koma málum þannig fyrir að landbúnaðurinn hefði aðgang að sjóði í hans umsjón, sem væri með öruggar tekjur frá veltu landbúnaðarafurða, eru líkur á að það verði til þess að íslenskar landbúnaðarrannsóknir og fræða- og leiðbeiningastarf eflist. Hugsanlega myndi aðsókn að landbúnaðarnámi, bæði verklegu og á háskólastigi, aukast vegna þess að til væri fjármagn til að koma hlutum í framkvæmd og halda þeim áfram. Væntanlegir nemendur og leiðbeinendur við Landbúnaðarháskóla Íslands sæju tækifæri í að sækja um styrki í þennan sjóð, til að stunda rannsóknir og fræðastarf sem óbeint mynda leiða til eflingar stofnuninnar.

 

Frumkvæði frá bændum
Umræða um þessi mál þarf að fara fram meðal bænda og bændaforystunnar og þeirra sem stjórna landinu. Það gera sér vonandi flestir grein fyrir að ef stunda á alvöru rannsóknir og fræðastarf í landbúnaði þarf til þess fjármagn. Við sem núna erum í landbúnaðinum verðum að gera okkur grein fyrir að rannsóknar og þróunarstarf í landbúnaði er forsenda fyrir að íslenskur landbúnaður sé samkeppnishæfur og standist þar með ógnanir sem fylgja minnkandi tollvernd og auknum innflutningi landbúnaðarvara. Það er auðvitað hægt að sækja mikið af þekkingu til útlanda en við verðum að hafa þekkingu hér heima til að geta nýtt okkur hana svo gagn sé af. Nú kann einhver að segja að þetta sé verkefni ríkissins og fjármagnið eigi að koma þaðan og málið þar með útrætt. Það er auðvitað margt til í því og á kannski að vera markmið í sjálfum sér. Það kemur samt aldrei í staðinn fyrir það að fjármagnið komi beint frá landbúnaðinum og að bændur sjálfir ráði hvernig því er ráðstafað. Ríkið á auðvitað einnig að leggja til fjármagn en við verðum að gera ráð fyrir að það verði alltaf barátta um upphæðir sem skapar óvissu um mörg verkefni sem þurfa stöðuleika. Til þess að bæta úr þessari stöðu, þarf mótframlag frá greininni sjálfri.

 

Að lokum
Setjum þessi mál á dagskrá í umræðum um framtíð íslensks landbúnaðar, það er okkur mjög mikilvægt. Við höfum fyrirmynd frá Danmörku og Nýja Sjálandi hvernig bændur og stjórnvöld þar hafa nýtt fjármagn sem hefur orðið til af auragjaldi á landbúnaðarframleiðslu. Í Danmörku er rekinn einn framsæknasti landbúnaður heimi sem eftir er tekið og margar þjóðir vilja hafa sem fyrirmynd hvað varðar tækni og afköst. Þessi staða í dönskum landbúnaði er væntanlega til komin vegna þess að bændur þar hafa haft framsýni til að leggja fjármuni fyrir í sjóði úr eigin rekstri og haft sjálfir forgöngu um að nota í þróunarstarf í þágu landbúnaðar.

Pétur Diðriksson
Helgavatni