Hvernig jókst mjólkurframleiðslan um 23 milljónir lítra?
11.02.2016
Á liðnu ári var innvigtun mjólkur 146 milljónir lítra, eða 6 milljónir lítra umfram greiðslumarkið 2015 sem ákveðið var 140 milljónir lítra fyrir nýliðið verðlagsár. Árið 2013 var innvigtunin 123 milljónir lítra og hefur framleiðslan því aukist um 23 milljónir lítra á tveimur árum. Ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um tilurð þessarar aukningar. Sú frumlegasta sem fram hefur komið, er á þá leið að mjólkurkýr í landinu hafi verið mun fleiri en gögn hafi legið fyrir um; hér hafi leynst allt að 3.500 kýr sem ekki hafi verið vitað af.
Þegar meta á fjölda nautgripa hér á landi er hægt að styðjast við tvenns konar gagnasöfn; forðagæsluskýrslur og skýrsluhald nautriparæktarinnar. Forðagæsluskýrslurnar eru hin opinberu gögn sem bændum er skylt að gefa upp, eigi síðar en 20. nóvember ár hvert. Galli þeirra er sá að niðurstöður birtast ekki fyrr en all langt er liðið frá söfnun þeirra. Skýrsluhald nautgriparæktarinnar er hins vegar gert upp mánaðarlega og þar má því fylgjast nokkuð grannt með þróun á ýmsum lykil þáttum í þróun greinarinnar. Galli þess er hins vegar sá, að ekki eru allir bændur þátttakendur, auk þess sem hluti bænda skilar skýrslum óreglulega; lang flestir kúabændur sinna þessum þætti búrekstrarins hins vegar af alúð. Af þessum sökum getur verið snúið að fá nákvæmt mat á gripafjöldanum og þróun hans.
Á heimasíðu Datamarket er hægt að nálgast upplýsingar um gripafjölda samkvæmt forðagæsluskýrslum og eru nýjustu upplýsingar þar frá árinu 2014.
Í lok árs 2013 var fjöldi mjólkurkúa samkvæmt forðagæsluskýrslum 24.210. Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2015, sem gerðar voru opinberar 22. janúar 2016, var fjöldi árskúa í skýrsluhaldi 25.610, á 582 búum. Samkvæmt sérstakri yfirferð á þeim 53 búum sem standa utan skýrsluhaldsins og nálgast má upplýsingar um á www.bufe.is, voru á þeim 1.633 árskýr árið 2015.
Alls var fjöldi árskúa árið 2015 því 27.243. Það er fjölgun um 3.000 kýr frá haustinu 2013.
Árið 2013 var mjólkurframleiðslan á Íslandi 123 milljónir lítra, árið 2015 var hún 146 milljónir lítra. Framleiðsluaukningin á þessum tíma er því 23 milljónir lítra, eins og áður segir. Að stærstum hluta til er hún til komin vegna áðurnefndrar fjölgunar á kúm; 3.000 árskýr skila í samlag 15-16 milljónum lítra. Þar við bætist að meðalnyt árskúa hefur hækkað um 230 kg á árskú á undanförnum tveimur árum; hún var 5.621 kg/árskú árið 2013 en 5.851 kg/árskú árið 2015. Afurðaaukningin skilar rúmlega 6 milljónum lítra til viðbótar. Notkun á kálfadufti hefur aukist verulega mikið, sem leiðir af sér að hærra hlutfall mjólkurframleiðslunnar skilar sér í samlag. Samanlagt fara þessir þættir langt með að skýra 23 milljóna lítra aukningu innvigtunar mjólkur sem átt hefur sér stað á undanförnum tveimur árum.
Haustið 2013 lá þegar fyrir að hægt væri að bregðast við einstaklega óvenjulegum aðstæðum á markaði með tvennum hætti; að tefja slátrun og að fá kvígurnar yngri inn í framleiðsluna. Í hvaða mæli þetta myndi gerast var hins vegar engin leið að spá um, enda aðstæðurnar án fordæma. Strax um haustið 2013 dróst slátrun á kúm saman um 20% og hélst sá samdráttur langt fram á árið 2015, þegar slátrun stöðvaðist alfarið á tímabili vegna verkfalls. Það skal viðurkennt að þessi samdráttur varð meiri og langvinnari, en ég og fleiri töldum raunhæft. Frá sl. hausti hefur förgun á kúm aftur farið hratt vaxandi, enda fjós víða orðin full, og sums staðar rúmlega það.
Undanfarin misseri hefur talsvert verið rætt á vettvangi LK um mikilvægi þess, að geta spáð fyrir um þróun og horfur í mjólkurframleiðslunni. Til að svo megi verða, þarf að vera hægt að afla tiltölulega nákvæmra upplýsinga um helstu stærðir, t.d. gripafjölda á hverjum tíma. M.a. af þessum orsökum er lagt til í drögum að nýjum búvörusamningi að þátttaka í skýrsluhaldi verði forsenda fyrir stuðningsgreiðslum úr honum./BHB