Hvernig hefur nautakjötsverðið þróast?
30.04.2010
Undanfarna daga hefur verið rætt nokkuð um matvælaverð hér á landi. Hafa þar skotið upp kollinum gamalkunnug stef um að hækkanir á matvælaverði megi fyrst og síðast rekja til hækkana á innlendum landbúnaðarafurðum. Því er ekki úr vegi að skoða hver þróunin hefur verið á undanförnum misserum. Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á nautakjötsverði til neytenda og framleiðenda undanfarin þrjú ár, ásamt þróun almenns verðlags á sama tíma.
Verðvísitala nautakjöts til neytenda er fengin frá Hagstofu Íslands en nautakjötsverð til framleiðenda er vegið meðalverð fyrir þrjá algenga flokka, UN1A, K1UA og K1, frá SS, Norðlenska og Sláturhúsinu Hellu hf. Samtals standa þessi fyrirtæki fyrir um 70% af slátrun nautgripa. Á undanförnum 3 árum (maí 2007-apríl 2010) hefur almennt verðlag hækkað um ríflega þriðjung. Verð til framleiðenda hefur hækkað um 6-8%, verð til neytenda hefur verið sveiflukennt en hækkun þar er mjög svipuð og til framleiðenda. Raunverð á nautakjöti hefur því lækkað verulega á því tímabili sem hér um ræðir.