Hvernig dreifist mjólkurframleiðslan um landið?
16.04.2010
Síðan sala á greiðslumarki var leyfð fyrir tæpum tveimur áratugum, hefur orðið tiltölulega lítil breyting á dreifingu mjólkurframleiðslunnar um landið. Mjög miklar breytingar hafa orðið á fjölda framleiðenda, þegar LK var stofnað 1986 voru framleiðendur 1.822 en eru í dag tæplega 700 talsins. Á myndinni hér að neðan má sjá skiptingu framleiðsluréttarins milli búnaðarsambandssvæða, annars vegar eins og hún var verðlagsárið 1990-91, áður en viðskipti með framleiðslurétt hófust, hins vegar eins og hún er í dag.
Hlutfallslega hafa mestar breytingar orðið á búnaðarsambandssvæði Norður-Þingeyinga, af því svæði hefur allur réttur verið seldur. Þess ber þó að geta að hann var einungis tæplega 300.000 lítrar fyrir 20 árum. Á svæði búnaðarsambands Kjalarnesþings hefur framleiðsluréttur, sem hlutfall af landsframleiðslunni, minnkað um tæplega þriðjung. Samdráttur hefur einnig orðið í Borgarfirði og Húnaþingi. Hlutfallslega hefur mesta aukningin orðið í Skagafirði, 16% og Austur-Skaftafellssýslu, 13%. Suðurland hefur aukið hlutdeild sína um tæp 6% og nær engin breyting hefur orðið í Eyjafirði, 1,2%. Það vekur því óneitanlega athygli hvað litlar breytingar hafa orðið á þessum árafjölda, þar sem síðari hluti tímabilsins má teljast eitt mesta umbrotaskeið í sögu mjólkurframleiðslunnar hér á landi.