Hver er staða fóðurfyrirtækjanna?
18.01.2010
Landssamband kúabænda hefur tekið saman upplýsingar um stöðu og rekstur fóðurfyrirtækjanna hér á landi. Upplýsingarnar eru fengnar úr ársreikningum félaganna, sem fengnir voru hjá ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra, sem eru opinber gögn. Hér verður fjallað um stöðu Fóðurblöndunnar hf og Mjólkurfélags Reykjavíkur hf. sem rekur fóðurverksmiðju undir nafni Líflands.
Bústólpi ehf. á Akureyri, sem framleiðir kjarnfóður og selur auk þess áburð og ýmsar rekstrarvörur er 100% í eigu Fóðurblöndunnar hf. Árleg viðskipti kúabænda við þessi fyrirtæki eru líklega talsvert á þriðja milljarð árlega, svo hér er um að ræða mjög mikilvæg félög frá sjónarhóli þeirra. Lagðir voru til grundvallar ársreikningar fyrirtækjanna fyrir árið 2006, 2007 og 2008. Í sumum tilfellum eru um að ræða samandregna ársreikninga. Þeir eru aðgengilegir með því að smella hér.
Fóðurblandan hf. samstæða:
Tap samstæðunnar á árinu 2008 nam 1.875 milljónum króna samanborið við 169 milljón króna tap á árinu 2007. Tapið 2008 skýrist að mestu af gengistapi vegna lána samstæðunnar en heildar gengistap félagsins á árinu 2008 nam um 2.300 milljónum. Þar af eru, eins og sjá má í sjóðstreyminu undir rekstrarliðum sem ekki hreyfa handbært fé, um 1.800 milljónir gengismunur og verðbætur lána.
Athygli vekur að strax á árinu 2006 var um 60 milljóna króna tap á rekstrinum enda var framlegðarhlutfall það ár lágt í samanburði við hin árin. Velta samstæðunnar hefur hækkað úr 2,7 milljörðum króna árið 2005 í 5,9 milljarða árið 2008 og EBITDA framlegð félagsins hefur hækkað úr 236 milljónum í 612 milljónir. Framlegðarhlutfall rekstrar var 10,5% á árinu 2008.
Á sama tíma hafa bókfærðar eignir og skuldir hækkað verulega. Eignir hafa hækkað úr 4,1 milljarði í 5,8 milljarða og skuldir hafa hækkað úr 2,6 milljörðum í 5,2 milljarða í árslok 2008. Eigið fé félagsins er 679 milljónir í árslok 2008 eftir að bókfært verð fasteigna var fært upp um 1.719 milljónir króna með sérstöku endurmati (nettóáhrif á eigið fé að teknu tilliti til tekjuskattsskuldbindingar um 1.460 milljónir). Eiginfjárhlutfall félagsins er 12% í árslok 2008.
Ljóst er að félagið þarf á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda til að hægt sé að tryggja áframhaldandi rekstur þess. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 188 milljónir á árinu 2008 og hefur þróast með mjög óheppilegum hætti frá árinu 2005, skuldir félagsins eru mjög miklar og eigið fé lítið. Samkvæmt þeim viðmiðunarreglum sem vitað er að hafa verið notaðar hjá viðskiptabönkunum við fjárhagslega endurskipulagningu félaga er talið að viðráðanleg vaxtaberandi skuldsetning félaga sé á bilinu 3-5 sinnum EBIDTA sem væri um 1.800-3.100 milljónir m.v. EBITDA framlegð Fóðurblöndunnar hf. árið 2008. Vaxtaberandi skuldir félagsins í árslok 2008 voru um 4.683 milljónir og heildar skuldir eins og áður sagði um 5,2 milljarðar króna.
Meðal eigna félagsins er viðskiptavild sem bókfærð er á 1.059 milljónir króna sem er um 18% af heildar eignum félagsins og 155% af eigin fé í árslok 2008. Miðað við rekstur félagsins og þróun geta vaknað spurningar um hvers virði þessi viðskiptavild er.
Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. samstæða
Tap samstæðunnar á árinu 2008 nam 427 milljónum króna samanborið við 200 milljóna króna hagnað á árinu 2007. Tapið 2008 skýrist að mestu af gengistapi vegna lána samstæðunnar en í sjóðstreyminu kemur fram að gengismunur og verðbætur lána sé um 400 milljónir. Velta samstæðunnar hefur hækkað úr 2,2 milljörðum árið 2007 í 2,9 milljarða árið 2008.
EBITDA framlegð hefur hækkað úr 127 milljónum árið 2006 í 328 milljónir árið 2008. Framlegðarhlutfall rekstrar var 11,4% árið 2008. Á sama tíma hafa bókfærðar eignir og skuldir hækkað verulega. Eignir hafa hækkað úr 1,5 milljarði árið 2006 í 2,7 milljarða 2008 og skuldir hafa hækkað úr 1,5 milljörðum í 2,3 milljarða í árslok 2008. Eigið fé félagsins er 414 milljónir í árslok 2008 og eiginfjárhlutfall er 15%.
Líkt og hjá Fóðurblöndunni en nokkuð ljóst að Mjólkurfélag Reykjavíkur hf. þarf á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda til að hægt sé að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 40 milljónir á árinu 2008, skuldir félagsins eru mjög miklar, eigið fé lítið og ólíklegt að verulegar duldar eignir séu til staðar hjá félaginu.
Samkvæmt áður nefndum viðmiðunarreglum væri viðráðanleg vaxtaberandi skuldsetning félagsins væntanlega um 1.000-1.600 milljónir króna m.v. EBITDA framlegð félagsins árið 2008. Vaxtaberandi skuldir félagsins í árslok 2008 voru um 1.907 milljónir króna og heildar skuldir eins og áður sagði um 2,3 milljarðar króna.
Eins og fram kemur í ársreikningi félagsins 2008 var hafinn undirbúningur að byggingu nýrrar fóðurverksmiðju á árinu 2008. Líklegt verður að telja að kostnaður vegna þeirrar byggingar verði hærri en til stóð vegna efnahagshrunsins og líklegt að skuldir hafi hækkað töluvert á árinu 2009 en á móti má væntanlega gera ráð fyrir að fóðurverksmiðjan muni skila auknum tekjum og framlegð. Meðal eigna félagsins er viðskiptavild sem bókfærð er á 251 milljónir króna í árslok 2008 sem er um 9% af heildar eignum félagsins og 61% af eigin fé.
Staða félaganna í árslok 2008
Ljóst er að bæði félögin eru mjög skuldsett og fjárhagsleg endurskipulaging nauðsynleg ef halda á rekstrinum áfram. Í þessu samhengi má líka velta því fyrir sér hvort að þessi félög muni geta staðið fyrir eins hagstæðri framleiðslu á fóðri á Íslandi eins og hægt er, með þessar miklu skuldir á bakinu. Þó að lánadrottnar muni fallast á umtalsverðar leiðréttingar á skuldum þá verður að telja líklegt að félögin verði skilin eftir með miklar skuldir sem þarf að þjóna og það verður væntanlega ekki gert öðruvísi en í gegnum vöruverð.