Beint í efni

Hver á að framleiða matinn okkar?

15.04.2013

Bændasamtök Íslands boða til hádegisfundar í dag, mánudaginn 15. apríl kl. 12.00 um fæðuöryggi og mikilvægi þess að þjóðir nýti náttúrulegar aðstæður til framleiðslu á mat. Hvaða leiðir eiga Íslendingar að velja til að tryggja fæðuöryggi og leggja sitt af mörkum í matvælaframleiðslu heimsins? Af hverju og hvernig er tollum beitt sem stjórntæki til að verja innlenda matvælaframleiðslu?

Það er hverri þjóð nauðsyn að reka öflugan landbúnað. Nýjar áskoranir blasa við matvælaframleiðendum um allan heim sem þurfa að bregðast við aukinni eftirspurn eftir mat. Aukin velmegun, þverrandi olíulindir, fólksflutningar í borgir og iðnvæðing í Kína og Indlandi kalla á nýjar lausnir í matvælaframleiðslu. Árið 2012 keyptu Kínverjar 60 milljón tonn af sojamjöli frá útlöndum og þjóðir Norður-Afríku og Mið-Austurlanda fluttu inn 50 milljón tonn af hveiti. Þjóðir sem áður höfðu lítinn kaupmátt gera nú kröfur um prótein- og fituríkt fæði eins og vestræn samfélög. Þessi þróun mun breyta heimsviðskiptum með mat til frambúðar.

 

Vaxandi eftirspurn eftir eldsneyti og minna framboð af olíu hefur leitt til aukinnar sóknar í lífræna og endurnýjanlega orkugjafa. Þessi þróun hefur hækkandi áhrif á matvælaverð, þar sem uppskera bænda er notuð til orkuframleiðslu. Nú er um þriðjungi maísframleiðslu Bandaríkjanna ráðstafað til lífdísilframleiðslu. Í Brasilíu er meira en helmingur af öllum framleiddum sykurreyr nýttur í sambærilega framleiðslu á lífeldsneyti. Hækkandi verð á olíu mun ýta undir þessa þróun og leiða til aukinnar samkeppni við matvælaframleiðslu.

Allar þjóðir heimsins verða að hlúa að eigin matvælaframleiðslu. Þær verða að hafa frelsi til þess að verja hagsmuni sína og þróa þá landbúnaðarstefnu sem hentar í hverjum heimshluta. Markmiðið er að standa vörð um fæðuöryggi og búa svo um hnútana að hægt sé að framleiða mat fyrir alla heimsbyggðina.

Hádegisfundurinn verður haldinn mánudaginn 15. apríl á 2. hæð Hótel Sögu, í salnum Kötlu kl. 12.00-13.30. Fyrirlesari er Christian Anton Smedshaug, doktor í umhverfisfræðum, sem starfaði áður hjá Norsku bændasamtökunum en vinnur nú við rannsóknir og ráðgjöf. Christian Anton gaf út bókina „Feeding the World in the 21st Century,“ þar sem meðal annars er fjallað um matvælaframleiðslu í sögulegu samhengi og möguleika landbúnaðarins til að mæta erfiðum viðfangsefnum framtíðarinnar. Á eftir erindinu verða umræður, en erindi Christian Antons fer fram á ensku. Hádegishressing verður í boði bænda og eru allir áhugasamir velkomnir.