Beint í efni

Hvar er best hannaða lausagöngufjós landsins?

19.06.2010

Landbúnaðarháskóli Íslands fer nú í lok sumars af stað með verkefnið „Betri fjós“ en tilgangur þess er að gera úttekt á nýlega byggðum eða breyttum lausagöngufjósum. Í úttektunum verða fjósin metin út frá því hvernig þau hafa reynst viðkomandi bændum, með það að leiðarljósi að læra af reynslunni. Væntingar eru til þess að niðurstöðurnar leiði til betri

fjósa og að þeir kúabændur sem ætla að byggja og/eða breyta fjósum sínum á komandi misserum og árum, geti forðast algeng mistök við hönnun eða frágang.

 

Dæmi um ólíka hönnun og frágang eru t.d.:

– mismunandi grunnhönnun legubásafjósa

– afar ólíkar aðferðir við bæði hönnun og frágang á sléttum flórum

– mismunandi frágangur á stíum fyrir kvígur í uppeldi

– frágangur á vatnskörum og rýminu í kringum þau

– rými á göngusvæðum kúa í legubásafjósum

– mismunandi hönnun og frágangur á haughúsum og mykjugeymslum

– skrifstofu og fjölskyldurými í fjósum

– og hér má lengi bæta við!

 

Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði nautgriparæktar.

 

En hvar eru þessi fjós sem á að skoða?

Lesendur naut.is eru hér með hvattir til þess að koma með ábendingar nýlega byggð/breytt fjós sem að þeirra mati innihalda útfærslur sem eru áhugaverðar í þessu sambandi. Vinsamlegast sendið tillögur á: skrifstofa@naut.is