Beint í efni

Hvaða skýrir mun á orkunýtingu kúa?

11.08.2015

Það er gríðarlega mikill munur á orkunýtingu einstakra kúa og á milli ólíkra kúakynja. Hvað skýrir þennan mun hefur verið svolítil ráðgáta til þessa en nú hafa bandarískir vísindamenn komist að því í hverju munurinn liggur hjá Holstein kúm. Alls voru 16 kýr teknar í tilraunina og af þeim voru átta með afar góða nýtingu en hinar með mun slakari nýtingu. Kýrnar voru svo rannsakaðar hátt og lágt og í ljós kom að kýrnar sem nýttu fóðrið og þar með orkuna best voru einfaldlega með betri meltingu en hinar og skiluðu t.d. frá sér mun orkuminni skít. Af þeirri orku sem kýrnar átu fór 25,9% hennar beint í gegnum kýrnar sem nýttu fóðrið best, á meðan hinar skiluðu 28,6% aftur úr sér. Þá var hland þeirra einnig orkukrýrra en hinna sem nýttu fóðrið verr: 2,8% orkunnar skilaði sér í hlandinu á meðan hinar sendu þá leiðina 3,4% orkunnar.

 

Það sýndi sig ennfremur að kýrnar sem nýttu fóðrið best, ropuðu minna og töpuðu þar með síður frá sér orkunni í formi metangass. Alls tapaðist 5,2% orkunnar með metangasi frá kúnum sem nýttu fóðrið best á meðan hinar skiluðu frá sér að jafnaði 7,0% orkunnar með metangasi. Þetta var svo skoðað nánar og þá kom í ljós að í vömb kúnna sem framleiddu minna magn af metan-gasi voru færri bakteríur sem mynda slíkt gas. Ástæður þess að fjöldi einstakra vambarbaktería er mismunandi á milli kúa var ekki skýrður með þessari rannsókn sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science í júní/SS.