Beint í efni

Hvað varð af íslensku kvígunum eftir Færeyjatilraunina?

26.11.2007

Á dögunum var tekið viðtal við ungan færeyskan bónda, Sigert Patursson. Sigert býr á Vatnaskörðum í Hoyvík, rétt fyrir ofan Þórshöfn, höfuðstað Færeyja. Sigert tók við búinu árið 1999 af frænda sínum. Sigert er af miklum bændaættum, frá þeim mikla búskapar- og sögustað Kirkjubæ. Í Kirkjubæ hefur sama ættin stundað landbúnað síðan árið 1520, en kúabúskapur hefur núna verið lagður af á þeim bæ, nú er einungis stundaður sauðfjárbúskapur á bænum og er það bróðir Sigert, Jóannes Patursson, sem er bóndinn. Einnig er mikil ferðaþjónusta á bænum þar sem Kirkjubær er mikið heimsóttur af ferðamönnum. Sigert er nú að grafa grunninn fyrir nýju fjósi, fyrir um 70 kýr með DeLaval mjaltaþjóni.

Á Vatnaskörðum hafa nokkrar íslenskar kýr verið síðan samanburðartilraunin var gerð í Færeyjum fyrir rúmum áratug, þar sem samanburður var gerður á íslenskum og NRF kúm. Íslensku kýrnar eru ekki til lengur, en nokkrir afkomendur þeirra eru þó á bænum ennþá. Það að eitthvað af íslensku blóði er á bænum vakti áhuga minn og ég spurði Sigert nokkurra spurninga varðandi búskapinn.
 

Hvað ertu með margar árskýr?
Þegar ég tók við voru 22 kýr, en nú hef ég fjölgað þeim í 29 kýr. Það þyrfti að breyta fjósinu örlítið til þess að koma 7 kúm fyrir í viðbót.

 

Hver er ársnytin í kúnum?
Framleiðslan er um 7000 kg/kú/ári.

Hversu margar kýr á búinu eru blandaðar íslenskar/NRF?
Nú orðið er svo til ekkert íslenskt blóð í hjörðinni, þó eru einhverjar ¼ og 1/8 íslenskar, engar hreinar íslenskar. Mögulega er ein ½ íslensk, hana keypti ég þegar ég keypti kvóta um daginn.

 

Finnst þér vera munur á endingu blendinganna og hreinræktaðra NRF? Það er erfitt að segja til um. Þær íslensku eiga þó erfiðara með að ná sér af júgurbólgu, ef þær fyrst fá júgurbólgu er mjög erfitt að ná henni úr þeim aftur, sem gerist oft. Það skal þó tekið fram að slíkt skeður líka með NRF.

 

Hvernig eru blönduðu kýrnar samanborið við NRF varðandi skap, júgurheilbrigði, frumutölu og frjósemi?
NRF eru skemmtilegri í skapi heldur en þær íslensku, eftir því sem ég hef frétt eru Holstein kýrnar ennþá skemmtilegri heldur en NRF. Varðandi júgurheilbrigði þá á það sama við og með skapið, NRF eru með betra júgurheilbrigði heldur en blönduðu kýrnar. Frumutalan fer mikið eftir bóndanum og ytri aðstæðum, ef maður vinnur vel og aðstæður eru góðar, þá eru kýrnar einnig nokkuð heilbrigðar. Svipað get ég sagt um frjósemina, það er mjög einstaklingsbundið.

 

Framleiða blönduðu kýrnar jafn mikið og hreinu NRF kýrnar?
Nei, það finnst mér ekki. Það sýnir sig að afkastagetan batnar ár frá ári. Sérstaklega mjólka hreinu NRF kvígurnar meira heldur en íslensku kvígurnar gerðu.

 

Ef þú hefði geta valið kyn, hvaða kyn hefðir þú þá valið, það er að segja NRF, Holstein eða íslenskar?
Þegar ég tók við voru nokkrar gamlar NRF, nokkrar íslenskar, en restin voru blandaðar kýr, í dag er bústofninn svo gott sem hreinræktaður NRF. Ég hef einbeitt mér að að nota sæði úr nautum sem gefa gott júgur og gott skap. Síðustu tvo mánuðina hafa 10 kvígur borið, þær eru allar með fallegt og gott júgur og rólegar. Eins og er langar mig að halda fast við NRF kynið. NRF kýrnar eru ekki sérlega stórar, þær geta verið úti á sumrin og þær nýta færeyska grasið vel. Ungneytin þrífast vel og þroskast vel þó þau séu úti fram á haustið, og er það því mikilvægur þáttur fóðursins. Þetta hefði til dæmis ekki gengið með Holstein kýrnar, þær þurfa góða beit og mikið fóður til þess að mjólka vel, og það þýðir fyrir mig meiri kostnað vegna þess að þá þarf ég að kaupa meiri útlenskt fóður. Síðast en ekki síst skiptir það miklu máli að NRF kýrnar eru miklu kjötmeiri heldur en Holstein og íslenskar.

Hvernig er með burðarerfiðleika?
Burðarerfiðleikar eru ekki miklir hér hjá mér. Það fæðast 1-2 dauðir kálfar á ári af 25-35 burðum árlega. Ég þarf sjaldan að aðstoða kýrnar við burð, þær geta þetta alveg sjálfar. Eins og ég sagði áðan hafa 10 kvígur borið hjá mér undanfarna tvo mánuði, ég hjálpaði einungis einni þeirra, sá kálfur lifði, en önnur kvíga kom með dauðan kálf, henni hjálpaði ég ekki, kannski hefði kálfurinn lifað ef ég hefði aðstoðað við burðinn. Ég verð að lóga öllum nautkálfum þar sem ekki borgar sig að ala þá til kjötframleiðslu. Yfirleitt eru mjög fá vandamál varðandi kálfana. Hef einungis misst tvo kálfa sem hafa verið eldri en viku gamlir þessi 8 ár sem ég hef búið. Um það bil ein kýr á ári missir fóstur.

 

Í lokin nefnir Sigert dæmi varðandi endingu kúa hjá honum. Hann segist vera með eina 15 ára NRF kú, hún er nú á 12. mjaltaskeiði og frumutalan er eins og í nýborinni kvígu, þannig hefur verið með hana öll árin (7-9-13). Hún er nú að verða sú kýr sem hefur náð mestum æviafurðum í Færeyjum. Hún mjólkaði 4000 kg/ári þegar Sigert tók við búinu, en ársnytin er nú um 7500 kg/ári.

Ég þakka Sigert fyrir spjallið og óska honum góðs gengis með nýja fjósið og búskapinn.