Hvað mun fást fyrir umframmjólkina?
13.07.2005
Margir kúabændur eru að velta því fyrir sér þessa dagana hvað muni í raun fást fyrir umframmjólkina. Fyrir liggur að afurðastöðvarnar munu greiða próteingrunninn í allt að 6,1% lítrum umfram greiðslumark viðkomandi lögbýlis. Jafnframt liggur fyrir að greiddar eru C-greiðslur á innvegna mjólk í júlí og ágúst, óháð því hvort
sú mjólk er innan greiðslumarks eða ekki. Það liggur hinsvegar ekki fyrir hver upphæðin verður á C-greiðslunni pr. líter og því síður hver útjöfnunin verður á A- og B-greiðslum.
Ef litið er til uppgjörsins 2003/2004 frá Bændasamtökum Íslands má sjá að á landsvísu var útjöfnun á A-greiðslur alls 0,58% af greiðslumarki hvers lögbýlis og útjöfnun á B-greiðslur alls 1,8% af greiðslumarki hvers lögbýlis. Í neðangreindu dæmi er útjöfnun síðasta verðlagsárs notuð sem spágildi fyrir líðandi verðlagsár, en sérstök athygli er þó vakin á því að útjöfnun á A- og B-greiðslum getur verið mjög mismunandi á milli ára og á milli gömlu samlagssvæðanna og því ófyrirséð í dag hvernig útjöfnunin mun verða í lok þessa verðlagsárs.
Í fyrra nam C-greiðslan í júlí kr. 6,2696 pr. líter og í ágúst kr. 11,1642 pr. líter. Miðað við núgildandi verðlag (hækkun um 3,4% um áramótin) eru þetta kr. 6,4828 pr. líter í júlí og kr. 11,5438 pr. líter í ágúst. Nú liggur ekki fyrir framleiðslumagnið í júlí og ágúst, en ekki er þó ólíklegt að þessar tölur haldi nokkuð eða hækki jafnvel örlítið eins og framleiðslan virðist vera um þessar mundir.
Miðað við gefnar forsendur má því nálgast niðurstöðu fyrir umframmjólkina í ár.
Dæmi
Kúabú sem framleiðir 6,1% umfram greiðslumarkið (það magn sem afurðastöðvarnar vilja kaupa) og fær því alla þá umframmjólk greidda á próteingrunni. Öll umframmjólkin kemur í ágúst og reiknað er með að útjöfnun A- og B-greiðslna verði með sama hætti og í fyrra (mest óvissa með þennan þátt). Niðurstaðan verður eftirfarandi pr. líter:
Frá afurðastöð fær búið kr. 33,13
C-greiðslan er áætluð kr. 11,43
Samtals gerir þetta kr. 44,56 pr. líter.
Ef reiknað er með að útjöfnun verði svipuð og í fyrra, sem þó er líklega ólíklegt þar sem afurðastöðar kölluðu fljótt eftir umframmjólk, þá verður niðurstaðan eftirfarandi:
Útjöfnuð A-greiðsla er áætluð kr. 1,75
Útjöfnuð B-greiðsla er áætluð kr. 3,78
Samtals 50,2 kr. pr. líter
Líklegast er að fyrir þessi 6,1% umfram greiðslumark fáist því á bilinu 45 til 50 krónur miðað við gefnar forsendur