
Hvað má bjóða þér að borða?
08.04.2019
Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnu um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu miðvikudaginn 10. apríl kl. 10-12 á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskriftin er "Hvað má bjóða þér að borða? - Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu".
Á ráðstefnunni verður fjallað um gildi sérstöðunnar og þær áskoranir sem margar þjóðir standa frammi fyrir í sinni matvælaframleiðslu. Kröfur um örugg matvæli, fá sótspor, virðingu fyrir umhverfinu og auðlindum, bætta lýðheilsu og heilbrigt búfé munu hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu um heim allan á komandi árum.
Henk Jan Ormel, ráðgjafi í dýrasjúkdómum hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), fjallar um tengsl milli matvælaöryggis og sjúkdóma í mönnum og dýrum og hvernig haga má baráttu gegn matarbornum sjúkdómum. Þá verður fjallað um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu og hvernig á að sýna fram á hana og gefin dæmi um hvernig sérstaða er nýtt í markaðssetningu. Í lokin verða pallborðsumræður.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar ráðstefnuna og í lokin verða pallborðsumræður þar sem Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra taka þátt ásamt frummælendum. Fundarstjóri er Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Bændasamtakanna.
Að Matvælalandinu standa Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Matís, Íslandsstofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Matarauður Íslands og Háskóli Íslands.
Skráning er á vef Samtaka iðnaðarins - SKRÁ MIG