Beint í efni

Hvað kosta sauðburðarstíur?

17.03.2008

Nú er rétti tíminn til að huga að endurbótum á sauðburðaraðstöðu. Þá er upplagt að velta fyrir sér hvernig megi útbúa sauðburðarstíur en mikilvægt er að uppsetning þeirra sé einföld sem og öll not á sauðburði.

Nú er það svo að margar leiðir eru við að hólfa fé niður á sauðburði. Eins er afar misjafnt hve lengi bændur hafa lambær í einbýlisstíum eftir burð. Þetta veldur því að rýmisþörfin í fjárhúsunum er talsvert breytilegt. Á 1. mynd er teikning af einu stíusetti sem samanstendur af tveimur grindum og geta þær myndað kerfi eins og er á mynd 2. Þá er gangur aftan við stíurnar í krónni og því og einfalt að færa ær á milli þeirra. Einnig er hægt að útbúa stíur með lokunum sem nýta brynningu í þili eða að hafa stíurnar lokaðar og setja upp sk. stútabrynningu inni í stíunum. Það gengur þó einungis upp á grindargólfi.

Kostnaður við grindur eins og að framan greinir reiknast um 2.900 krónur með öllum festingum. Grindurnar eru gerðar úr tveimur 1x6” borðum (neðstu rimlarnir) og þremur 1x4” borðum lárétt með uppistöðum úr sama efni. Allt er fest saman með 10 mm kambstálsteini sem gengur í lykkjur úr girði og fest við garðann með tilbeygðum járnvösum úr flatjárni. Vel smíðaðar grindur eiga að vera nokkuð óháðar gerð garðans nema hvað varðar hæð lambavarsins. Hægt er að festa þær nokkuð óháð stoðasetningu garðans.

1. Mynd


2. Mynd


/Birt með leyfi höfundar. Sigurður Þór Guðmundsson, Búgarði.